Hagnaður bresku verslunarinnar Matalan dróst saman um 6,5% á fyrri helmingi fjárhagsárs, en þetta mun verða síðasta uppgjör fyrirtækisins áður en Hargreaves fjölskyldan tekur við rekstri þess, segi í frétt Dow Jones.

Hargreaves fjölskyldan á 53,5% hlut í fyrirtækinu og hyggst kaupa 46,5% hlutinn sem eftir er með stuðningi Kaupþings banka, en kauptilboðið hljóðar upp á 817 milljón pund (104 milljarðar króna.)

Hagnaður fyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum fjárhagsárs, sem lauk 26. ágúst, nam 28,7 milljónum punda fyrir skatta, samanborið við 30,7 milljónir punda á sama tímabili í fyrra.

John King, forstjóri fyrirtækisins, segir að aðstæður hafi verið erfiðar, en markmið fyrirtækisins um að auka hagnað og fjárstreymi séu nú að rætast. King segir að hagnaður sé að aukast og að hert hafi verið á kostnaðarliðum og hlutabréfaviðskipum fyrirtækisins sem muni sjá til þess að reksturinn verði kominn í rétt form fyrir árslok, segir í fréttinni.