Hagnaður Merrill Lynch jókst um tæplega helming á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaðurinn nam 1,4 milljarði dollara sem er methagnaður hjá fyrirtækinu á þessum fjórðungi ársins. Tekjur námu 6,7 milljörðum Bandaríkjadölum og jukust um 38% frá fyrra ári.

Þriðji fjórðungur er vanalega dapur hjá fjárfestingarbönkunum á Wall Street en mikil velta með skuldabréf, mikil aukning viðskipta með hlutabréf og mikil eftirspurn eftir fjárfestingarbankaþjónustu skýrir góðan árangur á fjórðungnum.

Merrill Lynch er ekki eini bankinn sem hefur skilað metafkomu á þessum fjórðungi því sama gerði Goldman Sachs. Stan O'Neal, forstjóri og stjórnarformaður Merrill Lynch, sagði að rekja mætti hagnaðinn að nokkru leyti til fjárfestinga á síðustu tveimur árum í fólki, tækni og fyrirtækjum.

Þegar O'Neal var ráðinn á sínum tíma skar hann niður stóran hluta kostnaðar fyrirtækisins og sagði upp þúsundum starfsmanna. Sumir töldu að vegna þessa myndu tekjur fyrirtækisins dragast jafnhliða saman. En fjárfestingar í nokkrum fyrirtækjum og þar á meðal fyrirtækjum í framleiðslu á hrávöru og endurvakinn áhugi á skuldsettum yfirtökum hafa aukið tekjurnar.