Hagnaður Microsoft nam 3,48 milljörðum Bandaríkjadala (237,3 milljörðum króna) á fyrsta fjórðungi fjárhagsársins, en það er 11% aukning frá sama tímabili í fyrra, en þá nam hagnaður fyrirtækisins 3,14 milljörðum Bandaríkjadala (214,1 milljörðum króna), segir í frétt Dow Jones.

Sala á helstu hugbúnaðarvörum Microsoft hefur verið kröftug, en einnig hefur verið mikil aukning í tölvuleikja starfsemi fyrirtækisins.

Afkomuspá fyrirtækisins fyrir fjórðunginn sem er að hefjast er hins vegar ekki glæsileg að mati markaðsaðila, en fyrirtækið spáir því að tekjur fyrirtækisins muni verða á bilinu 11,8 til 12,4 milljarða Bandaríkjadala.

Nýju stýrikerfi Microsoft, Vista, er beðið með mikilli eftirvæntingu, en Microsoft hefur gert breytingar á því, til að mæta kröfum samkeppniseftirlits Evrópusambansins. Stefnt er að Vista verði dreift til fyrirtækja í nóvember og til almennra neytenda í janúar.