Hagnaður íslenska millilagssjóðsins (e. mezzanine fund) Carta Capital nam 4,8 milljónum evra, eða 426 milljónum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi ársins 2006, samanborið við 3,5 milljónir evra í hagnað á sama tímabili árið 2005, sagði Auðun Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri sjóðsins í London, í samtali við Viðskiptablaðið í dag. Heildarhagnaður árið 2005 nam 8,1 milljón evra.

Auðun Már sagði ávöxtun á endurgreiddum lánum væri um 22%, en sjóðurinn sérhæfir sig í að kaupa millilagslán sem styðja við skuldsettar yfirtökur (e. leveraged buyout). "Við væntum þess að ávöxtun (á ársgrundvelli) fyrir sjóðinn í heild sinni verði í kringum 19%," sagði Auðun Már.

Carta Capital er með höfuðstöðvar sínar í City, fjármálahverfi London. Fyrirtækið hefur nú þegar fjárfest megnið af fyrsta sjóði sínum, Mezzanine Fund I, sem nemur um 90 milljónum evra (átta milljörðum króna), og verið að að klára fjármögnun á Mezzanine Fund II, sem líklegt er að verði lokað í 125 milljónum evra.