Hagnaður bandaríska fjárfestingabankans Morgan Stanley dróst saman um 57% á öðrum fjórðungi þessa árs og nam samtals 1,03 milljörðum dala. Hefði ekki komið til sala á tveimur einingum bankans á fjórðungnum, hefði bankinn ekki sýnt neinn hagnað.

Heildartekjur bankans numu 6,5 milljörðum dala og drógust saman um 38% frá því á sama tíma í fyrra.

Þrátt fyrir að afkoman hafi verið í samræmi við meðalspá greinenda á Wall Street lækkaði gengi bréfa í bankanum um 6% þegar markaðir opnuðu í morgun.

Uppgjörið sýndi mikinn samdrátt í hagnaði af fjárfestinga- og eignastýringasviði bankans, sem hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna lánsfjárkreppunnar og hrunsins á bandarískum fasteignamarkaði með undirmálslán.