Hagnaður af rekstri MP Fjárfestingarbanka hf. nam 613 milljónum kr. samanborið við 1.013 milljónir kr. árið 2004, sem var metár í afkomu. Arðsemi eigin fjár var 34%.

Vaxtatekjur námu 944 milljónum kr. og hækkuðu um 106% frá árinu áður. Hreinar rekstrartekjur námu 963 milljónum kr. og lækkuðu um 33% frá árinu áður vegna minni gengishagnaðar.

Þjónustutekjur námu 673 millj. kr. og hækkuðu um 57% miðað við 2004.

Gengishagnaður af annarri fjármálastarfsemi nam 286 milljónum kr., samanborið við 956 milljónir kr. árið 2004.

Önnur rekstrargjöld hækkuðu um 12% frá árinu áður og námu 289 milljónum kr. Launakostnaður hækkaði um 15% og nam 183 milljónum kr. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 8%.

Framlag í afskriftareikning útlána nam 6 milljónum kr. Afskriftareikningur útlána í árslok 2005 nam 35 millj. kr. í árslok eða 1,2% af útlánum og veittum ábyrgðum.

Heildareignir bankans í árslok 2005 voru 25.101 millj. kr. samanborið við 12.262 millj. kr. í ársbyrjun. Hækkunin er 105%.

Útlán til viðskiptamanna í árslok 2005 voru 2.900 millj. kr. samanborið við 2.323 millj. kr. í ársbyrjun.

Markaðsverðbréf og eignarhlutir í félögum námu í árslok 19.744 millj. kr. og hækkuðu um 128% á árinu, þar af námu eignir í skuldabréfum 5.792 millj. kr. og hlutabréfum 13.804 millj.kr. Félagið hefur gert framvirka samninga og skiptasamninga á móti verðbréfaeigninni að fjárhæð 10.983 millj. kr.

Lántaka nam í árslok 18.998 millj. kr. og heildarskuldir 21.754 millj. kr.

Eigið fé í árslok nam 3.347 millj. kr. samanborið við 1.919 millj. kr. í ársbyrjun. Hækkunin er 1.428 millj. kr. eða 74%.

Á árinu var hlutafé hækkað. Söluverð hlutafjárins nam 900 milljónir kr.

Eiginfjárhlutfall (CAD) samstæðunnar í árslok var 28,5% og styrktist á árinu, því í ársbyrjun var það 21,1%

Aðalfundur MP Fjárfestingarbanka verður haldinn í lok mars. Stjórn félagsins mun leggja fram tillögu um að greiddur verði 15% arður eða 150 milljónir kr. Það svarar til 24% af hagnaði ársins.