Hagnaður af rekstri MP Fjárfestingarbanka hf. á fyrstu sex mánuðum ársins nam 615 milljónum króna, samanborið við 345 milljónum króna á sama tímabili 2005, segir í tilkynningu bankans.

Hreinar rekstrartekjur námu 1.077 milljónum króna og hækkuðu um 89% frá sama tímabili og árið áður, eða úr 569 milljónum króna.

Arðsemi eigin fjár jafngildir 38,6% ávöxtun á ársgrundvelli.

Útlán til viðskiptamanna í lok júní 2006 voru 4.892 milljónir króna. samanborið við 2.900 milljónir króna í ársbyrjun. Heildareignir bankans í lok júní 2006 voru 24,83 milljarðar króna samanborið við 25,1 milljarða króna í ársbyrjun, lækkun um 1%.

Á tímabilinu var hlutafé hækkað um 70 milljónum króna að nafnverði. Söluverð hlutafjárins nam 565 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall (CAD) samstæðunnar í lok júní 2006 var 26,3% en í ársbyrjun var það 28,5%

Rekstur bankans á fyrri hluti ársins var mjög góður þrátt fyrir nokkuð erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum hér innanlands. Í ljósi aðstæðna á mörkuðum var ákveðið að draga saman efnahagsreikning bankans hér á landi en að auka áfram umsvif bankans erlendis, sagði bankinn.

Umsvif bankans jukust verulega erlendis á fyrri hluta ársins. Bankinn er meðal annars eini íslenski aðilinn að kauphöllunum í Eystrasaltslöndunum, en aðild bankans var samþykkt í júlí síðast liðnum. Góður árangur bankans í Austur Evrópu er hvatning til frekari vaxtar og verður opnað útibú í Eystrasaltslöndunum á haustmánuðum, sagði bankinn.

Það er mat stjórnar MP Fjárfestingarbanka hf. að framtíðarhorfur bankans séu góðar, ekki síst í ljósi sívaxandi tekna bankans af erlendri starfsemi, aukinna þjónustutekna og vaxandi markaðshlutdeildar á innlendum markaði. Þjónustutekjur bankans jukust verulega á fyrri hluta ársins og var afkoma tekjusviða bankans mjög góð.

Miðað við stöðu íslenska hagkerfisins, þar sem blikur eru á lofti, verður áfram gætt varúðar við fjárfestinga- og útlánaákvarðanir, sagði bankinn.