Hagnaður N1 eftir skatta og fjármagnsliði nam á fyrri helmingi ársins 474,2 milljónum króna, samanborið við 98,3 milljónir á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu en hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði nam tæpum 560 milljónum króna, samanborið við rúmar 70 milljónir á sama tíma í fyrra.

Eigið fé þann 30. júní 2009 nam 6.835 milljónum króna samanborið við 6.361 milljón í lok síðasta árs.

Veltufé frá rekstri nam 1.155 milljónum króna en var á sama tíma í fyrra 1.148 milljónir króna. Eigið fé félagsins var rúmlega 6,8 milljarðar í lok júní.

Rekstrartekjur félagsins af sölu drógust saman um 12,6% á milli ára, námu á fyrri helmingi þessa árs rúmum 17,2 milljörðum króna en námu í fyrra 19,7 milljörðum króna. Þá nemur hagnaður fyrir afskriftir og leigugjöld tæpum 1,9 milljarði króna, samanborið við rétt rúma 2 milljarða á sama tíma í fyrra.

Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 587,8 milljónir króna á fyrr helmingi ársins en voru einnig neikvæðir um 1.281,4 milljónir fyrir sama tímabil í fyrra.

Bókfært verð eigna félagsins í lok tímabilsins nam 26,9 milljörðum króna, samanborið við 25,3 milljarða við síðustu áramót. Fastafjármunir standa nánast í stað á tímabilinu og nema 12,3 milljörðum króna í lok þess.   Fram kemur í tilkynningunni að rekstrarhorfur út árið séu áfram erfiðar vegna óstöðugleika í efnahagsmálum. Hins vegar hafi kjarnastarfsemi félagsins gengið vel á árinu og reiknað sé með að afkoma ársins verði betri en árið 2008.