Starfsemi Sparisjóðs Norðlendinga gekk vel á árinu 2004 segir í tilkynningu félagsins. Hagnaður af starfseminni nam rúmlega 126 milljónum króna, sem er mun betri afkoma en árið á undan, þegar hann var tæplega 58 milljónir króna.

Bókfært eigið fé Sparisjóðs Norðlendinga í lok árs 2004 nam 594 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 11,6% í árslok, en samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8,0%. Skuldir og eigið fé námu samtals rúmum 5,9 milljörðum króna í árslok 2004, samanborið við ríflega 4,6 milljarða árið áður.

Aukning á öllum sviðum

Útlán í árslok 2004 námu tæpum 4,2 milljörðum króna og hækkuðu um rúman milljarð króna á milli ára. Skuldabréfalán voru þar fyrirferðarmest, eða tæplega 2,9 milljarðar króna, en yfirdráttarlán námu rúmum 1,2 milljörðum króna. Um 77% af útlánum sparisjóðsins eru til einstaklinga. Innlán námu í árslok tæpum 4 milljörðum króna og hækkuðu um 496 milljónir króna milli ára. Vaxtatekjur námu tæpum 519 milljónum króna og vaxtagjöld tæpum 211 milljónum. Aðrar rekstrartekjur námu tæpum 445 milljónum og önnur rekstrargjöld tæpum 230 milljónum króna. Framlag í afskriftareikning útlána var 58 milljónir króna. Stofnfé sparisjóðsins nam í árslok fjórum milljónum króna og skiptist það í 100 hluti sem eru í eigu 87 aðila. Stjórn sjóðsins leggur til að greiddur verði 22,2% arður til stofnfjáraðila á árinu 2005 vegna ársins 2004 og hann færður til hækkunar á stofnfé. Auk þess er lagt til að nýtt verði heimild í lögum um sérstakt endurmat stofnfjár og það hækkað um 5%. Á árinu störfuðu 23 starfsmenn að meðaltali hjá sparisjóðnum í 22 stöðugildum og námu launagreiðslur samtals 93 milljónum króna.

Fyrst og fremst hefðbundin bankastarfsemi

"Ég er mjög ánægður með afkomuna á liðnu ári," segir Jón Björnsson sparisjóðsstjóri í tilkynningu sjóðsins. "Áfram er mikill vöxtur í starfsemi Sparisjóðsins, innlán og útlán jukust á milli ára og arðsemi af starfseminni er 26,9%. Sparisjóður Norðlendinga er fyrst og fremst í hefðbundinni bankastarfsemi en yfirgnæfandi meirihluti viðskiptamanna okkar eru einstaklingar og minni fyrirtæki. Við leggjum mikla áherslu á að vera traust, vinaleg og persónuleg bankastofnun þar sem fólki líður vel að eiga viðskipti sín. Í sex ár í röð hafa viðskiptavinir Sparisjóðanna verið ánægðastir þegar viðhorf til fjármálafyrirtækja er mælt, samkvæmt niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar, þannig að þessi áhersla okkar er greinilega að skila sér til viðskiptavina okkar," segir Jón ennfremur.