Nestlé, svissneski matar- og drykkjarvörurisinn, tilkynnti í gær að hagnaður hefði hækkað um 21% á síðasta ári og numið 421 milljarði íslenskra króna. Um leið varaði fyrirtækið þó við því að hækkandi olíuverð myndi áfram leiða til hækkandi orku- og pökkunarkostnaðar. Fyrirtækið er stærsti matvöruframleiðandi í heimi.

Í tilkynningu fyrirtækisins sagði að sala hefði aukist í Ameríkuálfunni og sömuleiðis á nýjum mörkuðum. Þetta hefði leitt til þess að undirliggjandi tekjuvöxtur hefði verið 6,2%. Heildarsala nam 91 milljarði svissneskra franka, eða 4.800 milljörðum íslenskra króna.

Nestlé sagðist hafa hagnast á gengisbreytingum á árinu 2005, þar sem flestir gjaldmiðlar sem fyrirtækið hefði tekjur í hefðu hækkað í verði gagnvart svissneska frankanum. Sala í Evrópu var hlutfallslega slök, en hún óx um aðeins 2%. Að sögn fyrirtækisins er neytendaumhverfi í Evrópu "ládautt" og horfur á vexti í álfunni "hóflegar".

Í tilkynningunni sagði enn fremur að þrátt fyrir að fyrirtækið sæi fram á erfiðleika sem fylgdu hækkandi kostnaði tækist því að þenjast út með því að einblína á neytandann. "Sú staðreynd að nást hefur vöxtur í þessu umhverfi og á mettum mörkuðum sýnir hversu kraftmikil nýsköpun tengd þjónustu við neytendur getur orðið," sagði í tilkynningunni.