Hagnaður pólska símafyrirtækisins Netia Holdings nam 418 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 533,9 milljónir króna á sama tímabili í fyrra, segir í frétt Dow Jones.

Greiningaraðilar sem Dow Jones fréttastofan ræddi við spáðu hinsvegar 248 milljóna króna tapi.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á um 25% hlut í Netia og hefur gefið til kynna að félagið hafi áhuga á að auka hlut sinn. Novator á einnig 70% hlut í P4, þriðju kynslóðar farsímaarms Netia, en Netia á 30%.

Heildartekjur samsteypunnar námu 5,5 milljörðum króna, samanborið við 5,4 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Netia segir að afkomuspá fyrirtækisins verði óbreytt fyrir árið, sem segir til um að heildartekjur verði á milli 20,6 og 21,1 milljarðar króna. Fyrirtækið sagði hinsvegar að líklega yrði tap á rekstri samsteypunnar fyrir árið vegna kostnaðar við að koma P4 á fót.

Tap Netia vegna P4 nam 7,3 milljónum á þriðja ársfjórðungi, en 15 milljónum á fyrstu níu mánuðum ársins. Stóð til að farsímaþjónusta P4 yrði opnuð á síðasta fjórðungi þessa árs, en því hefur verið seinkað til fyrsta fjórðungs næsta árs, en tafir hafa orðið á afhendingu tilskilinna leyfa.