Hagnaður Norræna fjárfestingarbankans (NIB) á síðasta ári nam 137 milljónum evra eða rúmlega tólf milljörðum íslenskra króna. Hagnaður hefur dregist saman um 17% á milli ára en hagnaður ársins 2005 var 165 milljónir evra. Hreinar vaxtatekjur NIB námu 179 milljónum evra árið 2006, sem er 6% aukning frá árinu áður.

Mikið fjármagnsflæði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum minnkaði eftirspurn eftir lánum NIB á árinu 2006. Útborguð lán á árinu námu 1,6 milljörðum evra en var 2,1 milljarður fyrir ári síðan. Fjárhæð lána í lánasafni bankans breyttist ekki og nam 11,6 milljörðum evra í lok ársins.

Í lok árs 2006 átti NIB útistandandi lán í 36 löndum á flestum vaxtarsvæðum heims. Á árinu voru samþykktir 64 nýir lánasamningar í verkefnum í 19 löndum. Af þessum lánasamningum voru 27 við nýja viðskiptavini.

Orkugeirinn var afgerandi í lánveitingum til Íslands en bankinn veitti ný lán að fjárhæð 130 milljónum evra til íslenskra orkufyrirtækja eða tæplega tólf milljarða króna. NIB undirritaði ný lán við Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja til fjármögnunar fjárfestinga í vatnsafls- og jarðgufuvirkjunum. Lánsfjárhæð til orkuverkefna tvöfaldaðist í samanburði við árið áður. NIB er meðal stærstu lánveitenda til íslensks orkuiðnaðar og stóriðju. Útistandandi lán til Íslands námu 735 milljónum evra eða 66 milljarða króna í lok árs 2006, sem er 5% aukning frá árinu áður.