Hagnaður finnska símarisans Nokia dróst verulega saman á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og nam um 576 milljónum evra samanborið við hagnað upp á 1,8 milljarð evra á sama tíma árið 2007.

Þetta þýðir samdráttur upp á um 69%.

Þá minnkuðu tekjur félagsins um tæp 20% á sama tíma sem er nokkuð undir væntingum greiningaraðila að sögn Reuters fréttastofunnar.

Í tilkynningu frá félaginu í gær kemur fram að til stendur að draga saman seglin og minnka rekstrarkostnað verulega eða um 700 milljónir evra á þessu ári.