Nordea bankinn hagnaðist um 693 milljónir evra á 2. ársfjórðungi. Á sama tímabili í fyrra var hagnaður bankans 816 milljónir evra og er því um 15% samdrátt í hagnaði að ræða.

Afkoma bankans er í takt við spár greiningaraðila en gengi bankans lækkaði þó í viðskiptum dagsins. Lækkunina má að hluta til rekja til þess að forstjóri bankans tilkynnti um verri vaxtahorfur til skemmri tíma í kjölfar uppgjörsins.

„Nordea hefur haldið sig að miklu leyti til hlés á danska fasteignamarkaðnum þar sem minni bankar, til að mynda Roskilde Bank, hafa verið ágengari og segja stjórnendur stöður hans nægilega tryggðar fyrir lækkunum í fyrirsjáanlegri framtíð. Nordea starfar einnig, eins og margir norrænir bankar, í Eystrasaltslöndunum en samdráttur þar hefur haft neikvæð áhrif á hagnað banka undanfarið, til dæmis hjá Swedbank, auk þess sem töluvert hefur verið afskrifað af lánsöfnum þar. Þrátt fyrir að stór hluti afskrifta Nordea séu vegna eigna í Eystrasaltslöndunum er vert að geta þess að einungis 2,5% af heildarlánsafni bankans er vegna lána á þessu svæði,“ segir í Vegvísi Landsbankans.