Hagnaður Norræna fjárfestingabankans nam 89,6 milljónum evra (7,7 milljörðum króna) á fyrstu átta mánuðum ársins, samanborið við 117 milljónir evra (10,1 milljarðar króna) á sama tímabili, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fyrstu átta mánuður ársins einkenndust af mikilli greiðslugetu á markaðnum, sem hafði mikil áhrif á lánaeftirspurn í aðildarríkjum bankans. Eftirspurn í ríkjum utan bankans var hinsvegar mikil á tímabilinu, segir í tilkynningunni.

Rekstrarhagnaður bankans hefur verið í stöðugri aukningu, en vaxtahækkanir höfðu áhrif á hreinan hagnað bankans. Rekstrartekjur bankans námu 104 milljónum evra, samanborið við 98 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Mest var lánaeftirspurn innan orku- og framleiðslugeirans innan aðildarríkja bankans. Aukning var á lánum til Íslands, en fækkun í Finnlandi og Svíþjóð.

Utan aðildarríkja var mikil lánaeftirspurn og fjármögnuðu lán bankans meðal annars byggingu orkuvers í Póllandi, almenningssamgangna í Chile og Tyrklandi, fjarskiptanets í Brasilíu og Rússlandi.