Hagnaður norska bankans DnB NOR á fyrstu þremur mánuðum ársins dróst saman um 62% frá því á sama tímabili fyrir ári, og nam samtals 1,1 milljarði norskra króna. Meðalspá greinenda gerði ráð fyrir meiri hagnaði. Bankinn þurfti að afskrifa 2,5 milljarða norskra króna -- einkum í skuldabréfasafni sínu.

Samdrátt í hagnaði DnB NOR má einkum rekja til taps vegna tryggingastarfsemi bankans, en sérfræðingar eiga von á að bankinn geti unnið tapið til baka þegar markaðaðstæður komast í eðlilegt horf á ný. Hreinar vaxtatekjur jukust um 26% á fjórðungnum. Hins vegar lækkuðu hreinar rekstrartekjur bankans um 26%, að stórum hluta vegna mikilla afskrifta.