Hagnaður Nýherja eftir skatta í fyrsta ársfjórðungi nam 54 milljónum króna, samanborið við 26 milljónir á sama tímabili árið áður.

Tekjur Nýherja á fyrsta ársfjórðungi 2006 námu 1.909 milljónum og jukust um 34% á milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) af starfseminni var 158 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2006 eða 8,3% en var 41 milljón og 2,9% á sama tíma í fyrra.

Hagnaður á hlut á árinu nam 0,27 krónum, samanborið við 0,11 krónur í fyrsta ársfjórðungi 2005.

Tekjur af vörusölu og tengdri þjónustu námu 1.242 milljónum króna og skilaði sú starfsemi félagsins 68 milljónum í rekstrarhagnað.

Tekjur af hugbúnaði, tengdri þjónustu og ráðgjöf námu 667 milljónum króna í fjórðungnum en rekstrarhagnaðurinn af þeirri starfsemi var 64 milljónir króna.

Nýherji hf. keypti 21. febrúar eigin bréf, samtals 46.300.000 hluti á genginu 13,8. Eftir kaupin á Nýherji 19,3% af eigin bréfum.