Hagnaður Nýherja [ NYHR ] jókst um 73% á fjórða ársfjórðungi 2007 borið saman við sama tímabil fyrir ári og nam 118 milljónum króna. Tekjur jukust um 30% á milli ára, líkt og sjá má á töflunni hér til hliðar, og EBITDA, það er hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, jókst um 28% í 221 milljón króna,  samkvæmt ársuppgjöri félagsins sem birt var í fréttakerfi Kauphallarinnar eftir lok markaðar í dag.

Óx töluvert árið 2007

Hagnaður Nýherja yfir allt árið 2007 jókst um 37%  milli ára og nam við lok ársins 420 milljónum króna. Tekjurnar jukust um 31% milli ára og voru 11,3 milljarðar króna við lok ársins,

Þrátt fyrir það, jókst EBITDA einungis um 3% milli ára.

„Kostnaður við uppbyggingu erlendra dótturfélaga veldur því að EBITDA hlutfallið lækkar á milli ára úr 7,9% í 6,2%,“ segir í fréttatilkynningunni.

Skammtímaskuldir jukust um helming á milli ára og námu 2,7 milljörðum króna við árslok 2007. Á sama tíma lækkuðu langtímaskuldir um 13%.

Innri vöxtur 22% árið 2007

„Staða Nýherja á íslenska markaðnum hefur styrkst mjög á árinu," segir Þórður Sverrisson, forstjóra Nýherja, í fréttatilkynningunni. „Góður innri vöxtur móðurfélagsins, sem nam 22% á síðasta ári, skilaði sér í bættri afkomu og studdi við frekari uppbyggingu á starfsemi félagsins erlendis. Árangurinn á íslenska markaðnum má m.a. þakka nánu samstarfi við stærstu viðskiptavini félagsins og vandaða söluráðgjöf til þeirra."

Kaup á Dansupport eykur launakostnað nokkuð

Launakostnaður samstæðunnar jókst nokkuð á milli ára vegna fjölgunar starfsmanna og kaupa á nýrri starfsemi, segir í fréttatilkynningunni. Launakostnaður á árinu var 3,3 milljarðar króna en nam árið áður 2,4 milljörðum króna. Hækkun launakostnaðar er að mestu tilkomin vegna kaupa á starfsemi Dansupport í Danmörku og fjölgunar vegna uppbyggingar nýrrar starfsemi AppliCon erlendis. Meðalfjöldi stöðugilda hjá Nýherja og dótturfélögum var 446 árið 2007, sem er aukning um 109 frá árinu á undan. Í árslok voru stöðugildi 482 en heildarstarfsmannafjöldi 501.

Horfur á að hægist á eftirspurn eftir þjónustu upplýsingatæknifyrirtækja

Í fréttatilkynningunni segir að síðustu tvö ár hafi eftirspurn eftir þjónustu upplýsingatæknifyrirtækja farið stöðugt vaxandi á Íslandi, en horfur séu á að nú kunni að hægja á um sinn. Félagið telur sig eiga ágæt sóknarfæri í dótturfélögum á erlendum mörkuðum. Áætlanir samstæðunnar fyrir árið 2008 gera ráð fyrir svipuðum rekstrarárangri og á liðnu ári.