Hagnaður Nýherja eftir skatta jókst á liðnu ári og nam alls 76,5 milljónum borið saman við 49,5 milljóna hagnað árið á undan. Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallarinnar.

Engin viðskipti voru með bréf Nýherja í Kauphöllinni í gær, föstudag, en síðasta viðskiptagengi er 14,20 og er markaðsverðmæti félagsins liðlega 3.500 milljónir króna. Hlutabréf Nýherja hafa hækkað um 4,5% á liðnum mánuði og um 11,30% síðustu 12 mánuði.

Tekjur Nýherja á síðasta ári námu 6.293,0 mkr, en voru 5.470,3 mkr árið á undan og er tekjuaukning því 15% milli ára. Hagnaður Nýherja ásamt dótturfélögum fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir ? EBITDA ? nam 232,7 mkr, en var 268,7 mkr árið áður. Hlutfall EBITDA af heildartekjum er því 3,7% á árinu. Stjórn félagsins reiknar með ágætri afkomu á þessu ári, eins og segir í tilkynningu.

Launakostnaður á síðasta ári nam 1.635,0 mkr og hækkar um 7% fyrir samstæðuna í heild. Meðalfjöldi stöðugilda hjá Nýherja og dótturfélögum var 297 árið 2005 sem er aukning um 33 starfsmenn frá árinu á undan. Í árslok voru stöðugildi 323 en heildarstarfsmannafjöldi 337. Fjölgun starfsmanna er einkum tilkomin vegna kaupa á AppliCon A/S í Danmörku.

Í ársreikningnum hefur verið gerð varúðarfærsla að fjárhæð 185 mkr vegna ágreinings við viðskiptavin um greiðslu fyrir umfangsmikið ráðgjafarverkefni.

Fjórði ársfjórðungur

Heildartekjur Nýherja og dótturfélaga í fjórða ársfjórðungi námu 2.139,0 mkr og jukust um 20% frá árinu áður. Hagnaður í ársfjórðungnum nam 25,1 mkr samanborið við 19,8 mkr í sama ársfjórðungi árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir ? EBIDTA ? var 102,6 mkr samanborið við 138,6 mkr í sama fjórðungi árið áður.

Nýherji keypti danska fyrirtækið AppliCon A/S á haustmánuðum og stofnaði á Íslandi fyrirtækið AppliCon ehf. um SAP og Microsoft hugbúnaðar- og ráðgjafarþjónustu, sem áður fór fram á vegum Hugbúnaðarlausna Nýherja. Hjá dótturfélögum Nýherja náðist ágætur árangur í rekstri ParX ehf. viðskiptaráðgjafar og Klaks ehf. nýsköpunarseturs.

Í skýringum með reikningum Nýherja er gerð grein fyrir að tekjur félagsins af starfsemi sem falla undir vörusölu og tengda þjónustu var á árinu 4.760 mkr og rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað ? EBITDA ? 377,1 mkr.

Tekjur sem falla undir starfsemi á sviði ráðgjafar- og hugbúnaðarþjónustu námu 1.557 mkr og var EBITDA neikvæð af þeim rekstri að upphæð 144,3 mkr.

Árið 2005 var ár margháttaðra breytinga og nýjunga í starfsemi Nýherja. Gerðar voru umfangsmiklar skipulagsbreytingar í ársbyrjun með það að markmiði að skerpa ábyrgð á afkomu einstakra rekstrareininga með nýjum sviðum, Notendalausnum og Kjarnalausnum. Þá var stofnað sérstakt Sölusvið til að ná fram traustari viðskiptatengslum og vandaðri þjónustu við viðskiptavini félagsins.

Rekstur Notendalausna var í samræmi við áætlanir á árinu en sviðið annast innflutning, þjónustu og markaðssetningu á notendabúnaði, svo sem fartölvum, prenturum, ljósritunarvélum, prentvélum og ýmsum tengdum rekstrarvörum. Einnig starfar þar öflug deild sem veitir sérhæfða þjónustu á sviði hljóð- og myndlausna og var góður vöxtur á því sviði á árinu.

Áframhaldandi vöxtur var í starfsemi Kjarnalausna á árinu en starfsmenn þess annast þjónustu, markaðssetningu og innflutning á stærri tölvu- og tæknibúnaði og samþættingu þannig búnaðar. Náðst hefur mjög sterk staða í sölu IBM netþjóna og geymslulausna en Kjarnalausnir eru jafnframt í forystu í sölu á IP símatækni, bæði frá Avaya og Cisco Systems. Þá varð veruleg aukning í rekstrar- og hýsingarþjónustu sem markaðssett er undir merkjum Umsjár.

AppliCon

Í byrjun október undirritaði Nýherji samning um kaup á danska SAP ráðgjafarfyrirtækinu AppliCon A/S og stofnaði samhliða félagið AppliCon ehf. á Íslandi, sem tók yfir starfsemi á sviði SAP og Microsoft hugbúnaðar Nýherja. Sameiginlega hafa AppliCon fyrirtækin á að skipa um 110 ráðgjöfum og skipa sér þannig í hóp stærri SAP ráðgjafarfyrirtækja á Norðurlöndum. Markmiðið með starfsemi AppliCon er að byggja upp framsækið og öflugt hugbúnaðar- og ráðgjafarhús með starfsemi á Norðurlöndum og Bretlandi. Mikill innri vöxtur var í SAP og Microsoft hugbúnaðarráðgjöf en afkoman var undir væntingum vegna fyrrgreindrar varúðarfærslu. Starfsemi AppliCon A/S gekk vel á árinu en rekstur þess kom inn í reikninga Nýherja frá 1. október 2005.

Önnur dótturfélög

ParX ehf., dótturfyrirtæki Nýherja á sviði viðskiptaráðgjafar, veitir ráðgjöf á sviði stefnumótunar, fjármála, mannauðsmála, stjórnsýslu og markaðsmála. Rekstur ParX gekk vel á árinu og var hagnaður af starfsemi þess. Verkefnastaða ParX er góð og horfur vænlegar í starfsemi þess á árinu.

Klak ehf., dótturfélag Nýherja, rekur nýsköpunarsetur og eru átta fyrirtæki með aðstöðu hjá félaginu. Árið einkenndist af uppbyggingu Klaks á Sprotaþingi Íslands - Seed Forum Iceland - sem Klak stofnaði ásamt Samtökum sprotafyrirtækja. Klak var þátttakandi í evrópskum rannsóknarverkefnum í samvinnu við rannsóknarstofnanir og háskóla í Evrópu. Jákvæð afkoma var af rekstri Klaks ehf.

SimDex ehf. vann áfram að markaðsetningu, sölu og þróun á hugbúnaði til dreifingar á rafrænum vörum, svo sem forgreiddri símaþjónustu. Áhersla var á markaðssetningu í Danmörku og eru 900 verslanir þar tengdar miðlunarkerfi SimDex, þar sem einkum er seld forgreidd símaþjónusta. Tap var á rekstri SimDex vegna gjaldfærslu á sölu- og þróunarkostnaði. Samkvæmt áætlun félagsins er gert ráð fyrir að jafnvægi náist í rekstrinum á árinu 2006.

Mikil eftirspurn er eftir vörum og þjónustu á sviði upplýsingatækni, hugbúnaðar- og ráðgjafarstarfsemi og gera áætlanir Nýherja ráð fyrir ágætri afkomu á árinu 2006.