Rekstrarhagnaður Nýherja nam 169 milljónum króna fyrir afskriftir á þriðja ársfjórðungi. Félagið birti uppgjör sitt fyrir ársfjórðunginn í dag.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) félagsins á sama tíma í fyrra var 107 milljónir króna. 132 milljóna króna heildarhagnaður var á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 178 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra.

Nýherji hefur lokið samningum við viðskiptabanka sinn um endurskipulagningu langtímalána. Þá hefur félagið auki hlutafé sitt um 840 milljónir króna að markaðsvirði.

Félagið mun selja fasteign á 1.650 milljónir króna samhliða því að gera leigusamning til 15 ára. Áætlað er að vaxtaberandi skuldir félagsins lækki um 2.600 milljónir króna.

Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, segir í tilkynningu að afkoma þriðja ársfjórðungs sé ágæt. „Mjög jákvæð þróun hefur verið í rekstri Nýherja og innlendra dótturfélaga á árinu og er afkoman ágæt í þriðja ársfjórðungi 2010. Eftirspurn eftir tölvu- og tæknibúnaði hefur aukist og er sala umfram áætlanir. Eftir umtalsverða fækkun sérfræðinga á sviði hugbúnaðar hefur náðst jafnvægi við eftirspurn eftir hugbúnaðarþjónustu innanlands og skilar sú starfsemi nú hagnaði. Nýherji jók hlutafé um 120 mkr að nafnvirði og seldi fjárfestum á genginu 7,0. Samhliða var lokið samningum við viðskiptabanka félagsins um endurskipulagningu á langtímalánum. Heildaráhrif aðgerðanna eru að eigið fé félagsins styrkist um nálægt einn milljarð króna. Hlutafjáraukningin, sala fasteignar og lækkun höfuðstóls skulda mun lækka vaxtaberandi skuldir um 2.600 mkr. Að loknum þessum aðgerðum verður fjárhagsstaða Nýherja orðin sterk á ný og eiginfjárhlutfall félagsins verður yfir 30% í lok árs. Félagið mun leggja megináherslu á að bæta afkomuna enn frekar með áframhaldandi breytingum til hagræðingar í rekstrinum.“

Tilkynning Nýherja vegna ársfjórðungsuppgjörs má sjá í heild sinni hér .