554 milljóna króna hagnaður varð á rekstri Og fjarskipta hf. eftir tekjuskatt fyrstu níu mánuði ársins 2005 samanborið við 367 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 673 m.kr. fyrstu níu mánuði ársins en var 448 m.kr. í fyrra. Handbært fé frá rekstri án fjármagnsliða nam 1.893 m.kr.

Rekstrartekjur Og fjarskipta hf. námu 10.866 m.kr. fyrstu 9 mánuði ársins samanborið við 5.064 m.kr. á sama tímabili 2004. Rekstrartekjur jukust því um 115% milli ára.

Framlegð samstæðunnar var 4.233 m.kr. fyrstu níu mánuði ársins 2005 og jókst hún um 1.977 m.kr. á milli ára.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 2.319 m.kr. fyrstu 9 mánuði ársins. EBITDA var 1.389 m.kr. fyrstu 9 mánuðina í fyrra, og er aukningin 67% milli ára. EBITDA hlutfall af heildarveltu nam 21,3% á tímabilinu.

Eiginfjárstaða Og fjarskipta hf. er sterk segir í tilkynningu félagsins til Kauphalarinnar. Eigið fé félagsins nam 8.943 m.kr. í lok september og hefur vaxið um 1.380 m.kr. frá áramótum. Eiginfjárhlutfall er 39,8%.

Veltufjárhlutfall var 0,95 í lok tímabilsins samanborið við 0,66 um áramót.