Hagnaður Olíufélagsins ehf. og dótturfélaga á síðasta ári, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, nam 1.457,6 milljónum. króna. Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 334,5 milljónum króna samanborið við 883,4 milljóna króna hagnað fyrir sama tímabil á fyrra ári. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Veltufé frá rekstri nam 1.107,7 milljónum króna en var 1.129,3 milljónir króna fyrir sama tímabil á fyrra ári. Í lok desember 2006 var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 27,76%.

Í febrúar síðastliðnum keypti BNB ehf. alla eignarhluti í Olíufélaginu ehf. Í kjölfar kaupanna voru félögin sameinuð. Árshlutareikningurinn er reikningur sameinaðs félags Olíufélagsins ehf. og BNB ehf. Árshlutareikningurinn er gerður á sama hátt og síðastliðið ár og byggist á samstæðuárshlutareikningi Olíufélagsins ehf og dótturfélaga þess, Olíudreifingu ehf. og Egó ehf.

Rekstrartekjur samstæðunnar nema 24.136 milljónum króna samanborið við 20.574 milljónir króna á árinu 2005. Hreinar rekstrartekjur hækka um 509 milljónum króna frá fyrra ári og nema 5.641 milljónum króna. Rekstargjöld án afskrifta og leigugjalda nema 3.648 milljónum króna og eru 339 milljónum króna hærri en fyrir sama tímabil á fyrra ári. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 544 milljónir króna á tímabilinu en voru jákvæðir um 124 milljónir króna á fyrra ári.

Í lok tímabilsins námu heildarskuldir og skuldbindingar 17.282 milljónum króna og þar af námu langtímaskuldir 8.356 milljónum króna.