Opin Kerfi Group hf. hagnaðist um 46,1 milljón króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Hagnaður á sama tímabili ársins 2005 var 86 milljónir.

Heildarvelta Opin Kerfi Group á fyrri helmingi ársins 2006 var 6.452 milljónir króna, samanborið við 5.635 milljónir á sama tíma í fyrra. Um 74% teknanna eiga nú uppruna sinn í erlendri starfsemi félagsins en 68% á sama tíma í fyrra. 75% tekna eru frá sölu vél- og hugbúnaðar en 25% eru þjónustutekjur.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 143 milljónir króna, samanborið við 177 milljónir króna árið áður, en lækkunin er aðallega vegna breytinga á niðurstöðunni í Danmörku á milli ára.

?Forráðamenn félagsins gera þó ráð fyrir að EBITDA ársins í heild verði töluvert meiri en á fyrra ári. Þekktar árstíðabundnar sveiflur í rekstrinum gera það að verkum að þriðji árshluti er ávallt slakur, en síðasti fjórðungur sterkur, sem skilar þá seinni árshelmingi sem er að öðru jöfnu töluvert betri en sá fyrri,? segir í tilkynningunni.

Eigið fé félagsins er 1.750 milljónir króna, eiginfjárhlutfall er 31% og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 6,3%. Fjöldi starfsmanna er um 450.