Hagnaður Opin Kerfi Group eftir skatta var 76 milljónir króna 2006, en var á fyrra ári 214 milljónir króna. Opin Kerfi Group hf. Samstæðan hefur verið að fullu í eigu Hands Holding hf. síðan í október 2006.

Heildarvelta samstæðunnar á árinu 2006 var 13.099 milljónir króna, samanborið við 11.516 milljónir á fyrra ári sem er 14% aukning. Nú eiga um 75% teknanna uppruna sinn í erlendri starfsemi félagsins, samanborið við um 70% á fyrra ári. Um 75% tekna nú eru frá sölu vél- og hugbúnaðar en 25% eru þjónustutekjur. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 267 milljónir króna, samanborið við 379 milljónir króna árið áður.

Eiginfjárhlutfall félagsins er 28,9% og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 5,2% en var 12,5% á fyrra ári. Fjöldi starfsmanna samstæðunnar er tæplega 500.

Opin Kerfi Group hf. samanstendur af móðurfélaginu og þremur rekstrarfélögum sem eru: Opin kerfi ehf., Kerfi AB í Svíþjóð og Kerfi A/S í Danmörku.

Opin kerfi ehf.

Velta Opinna kerfa ehf. hefur dregist saman milli ára, er nú 3.248 milljónir króna en var á fyrra ári um 3.506 milljónir. EBITDA hagnaður nú er rúmar 116 milljónir króna, en var á fyrra ári tæpar 222 milljónir.

Rekstur Opinna kerfa ehf. gekk ekki vel á árinu, Agnar Már Jónsson forstjóri hætti og tók Gylfi Árnason stjórnarformaður tímabundið við starfi hans. Fleiri starfsmenn sögðu upp og fóru sumir þeirra að vinna hjá fyrirtæki sem kynnti sín markmið sem fyrst og fremst samkeppni við Opin kerfi ehf. Mikil orka fór á seinni helmingi ársins í nýráðningar í stað þeirra sem hættu, svo og þjálfun nýrra og eldri starfsmanna sem tóku að sér ný verkefni, en í árslok voru þessar mannabreytingar og endurþjálfun að mestu að baki.

Opin kerfi ehf tóku við heildsölu á Microsoft búnaði á árinu sem var að líða, og er gert ráð fyrir veltuaukningu vegna þessa á árinu 2007. Opin kerfi hafa styrkt sig í Microsoft lausnum og þjónustuframboði og eru mikil verkefni framundan. Þá hefur staða HP, megin birgja Opinna kerfa, sjaldan verið sterkari varðandi vöruframboð og samkeppnishæfni. Einnig má nefna að nýtt kraftmikið fólk er í öllum stöðum millistjórnenda miðað við upphaf árs 2006. Búist er við að afkoma 2007 verði svipuð og á árunum fyrir 2006.

Forstjóri Opinna kerfa ehf. síðan 1. mars 2007 er Þorsteinn G. Gunnarsson, og starfsmenn eru um 110 talsins.


Kerfi AB

Heildarveltan á árinu 2006 var 6.886 milljónir króna en var 2005 um 6.234 milljónir, og er aukningin um 10% á milli ára. EBITDA hagnaður jókst lítillega, í 142 milljónir en var 136 milljónir árið 2005. Velta í þjónustu var 2.335 milljónir króna árið 2006 en 1.759 milljónir árið 2005 sem er um þriðjungs aukning, en vörusala stóð nokkurn veginn í stað milli ára.

Áfram hefur verið unnið að hagræðingu í félaginu, sem beinist aðallega að lækkun kostnaðar við vörusölu og meiri skilvirkni og arðsemi í þjónustustarfseminni, en þar hefur verið bætt verulega við starfsfólki. Vegna þessa hefur fallið til verulegur kostnaður á árinu 2006, aðallega vegna uppsagna starfsmanna en slíkt getur verið mjög kostnaðarsamt í Svíþjóð. Gert er ráð fyrir verulegum afkomubata á árinu 2007.

Anders Fredholm tók við sem forstjóri þann 1. febrúar 2006. Starfsmenn Kerfi AB eru nú um 300.

Kerfi A/S

Heildarvelta Kerfi A/S á árinu 2006 var 2.965 milljónir króna en var 2005 um 1.788 milljónir, og er aukningin um 65% á milli ára. EBITDA hagnaður dróst saman, í 26 milljónir en var 69 milljónir árið 2005. Velta í þjónustu var 332 milljónir króna árið 2006 en 229 milljónir árið 2005 sem er um 45% aukning, og vörusala jókst um tæp 70% milli ára. Meginskýringar þessa eru að Kerfi A/S keypti í júlí 2005 félagið WorkIT, og í ágúst 2005 var rekstur Commitment Data A/S keyptur og hefur hvoru tveggja nú verið sameinað rekstri Kerfi A/S.

Sameining þessara félaga og hagræðing í framhaldi af því var þó erfið kostnaðarlega og m.a. sögðu þrír helstu millistjórnendur upp í janúar 2006, og EBITDA var neikvæð fyrir fyrstu tíu mánuði ársins. En stjórn og forstjóri náðu tökum á rekstrinum seinni part ársins og er búist við miklum afkomubata á árinu 2007.

Forstjóri Kerfi A/S frá upphafi er Carsten Egeberg og eru starfsmenn samtals rúmlega 70.