Heildarvelta Opin Kerfi Group á fyrri helmingi ársins 2007 var 6.245 milljónir króna, samanborið við 6.453 milljónir á sama tíma í fyrra.

Um 72% teknanna eiga nú uppruna sinn í erlendri starfsemi félagsins en 74% á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 131 milljónir króna, samanborið við 143 milljón árið áður. Forráðamenn félagsins gera þó ráð fyrir að EBITDA ársins í heild verði töluvert meiri en á fyrra ári. Þekktar
árstíðabundnar sveiflur í rekstrinum gera það að verkum að þriðji árshluti er ávallt slakur, en síðasti fjórðungur sterkur, sem skilar þá seinni árshelmingi sem er að öðru jöfnu töluvert betri en sá fyrri.

Hagnaður samstæðunnar eftir skatta var 51 milljónir króna á tímabilinu, en var á fyrra ári 46 milljónir króna sem er um 12% aukning.

Eiginfjárhlutfall félagsins er 33,5% og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 5,8% sem er aðeins
lægra en á fyrra ári. Fjöldi starfsmanna er um 470.


Opin Kerfi Group hf. samanstendur af móðurfélaginu, tveimur eignarhaldsfélögum og þremur rekstrarfélögum sem eru: Opin kerfi ehf., Kerfi AB í Svíþjóð og Kerfi A/S í Danmörku.


Opin kerfi ehf.
Velta Opinna kerfa ehf. hefur aukist milli ára, er nú 1.736 milljónir króna en var á fyrri helmingi síðasta árs um 1.691 milljónir. EBITDA hagnaður nú er rúmar 92 milljónir króna, en var fyrir sama tímabil í fyrra tæpar 105
milljónir. Forráðamenn félagsins eru sérlega ánægðir með þennan árangur eftir stormasaman seinni helming 2006 þar sem meðal annars forstjóri félagsins hætti störfum og nokkrir aðrir starfsmenn gengu til liðs við keppinaut.

Forstjóri Opinna kerfa ehf. síðan 1. mars 2007 er Þorsteinn G. Gunnarsson.

Kerfi AB
Velta Kerfi AB í íslenskum krónum talin, hefur lækkað milli ára úr 3.502 milljónum króna í 3.224 milljónir króna nú, en þjónustutekjur jukust um 13% milli ára. EBITDA hagnaður hefur lækkað lítillega á milli ára, úr 70 milljónum
króna í fyrra í 61 milljónir í ár. Styrking gengis íslensku krónunnar hefur þarna töluverð áhrif.

Samdráttur í vörusölu hefur haldið áfram á árinu, en áherslur stjórnenda eru á að halda þessari veltu sem hæstri, en einnig er aðhald í kostnaði við vörusölu til að halda afkomunni. Þjónustutekjur eru vaxandi og nokkur fjölgun hefur orðið á starfsmönnum á því sviði og er afkoman af þjónustustarfseminni þokkaleg og verður væntanlega jafnvel betri á seinni hluta ársins.

Horfur í Svíþjóð eru á að tekjur seinni helmings ársins muni aukast miðað við fyrra ár, og að afkoman muni verða betri en í fyrra.

Forstjóri Kerfi AB er Anders Fredholm.


Kerfi A/S
Kerfi A/S hefur vaxið milli ára, velta nú er 1.334 milljónir króna en var á sama tímabili í fyrra 1.260 milljónir króna. Aukningin er tilkomin vegna aukningar í vörusölu, en þjónustutekjur hafa ekki breyst milli ára. EBITDA er
nú neikvæð um 5 milljónir króna en var í fyrra neikvæð um 18 milljónir á sama tímabili. Forráðamenn félagsins voru ekki ánægðir með afkomuna fram eftir ári og var gripið til uppsagna um 10% starfsmanna í apríl. Sparnaður af því kemur fram í afkomu seinni helmings ársins. Forstjórinn, Carsten Egeberg, sagði upp
í júlí og hyggst starfa fyrir keppinaut þegar skyldum hans við Kerfi A/S lýkur. Gylfi Árnason mun gegna hans starfi tímabundið þar til nýr forstjóri er ráðinn, ferli sem talið er að taki 2-3 mánuði.

Gert er ráð fyrir mun betri afkomu í Danmörku á seinni helmingi ársins, en á þeim fyrri, og jafnvel betri en seinni helming 2006 en þá var EBITDA um 45 milljónir króna.

Í stjórn Opin Kerfi Group hf. sitja Aðalsteinn Valdimarsson, formaður, Sveinn Andri Sveinsson og Gylfi Árnason.