Sala samstæðu Össurar á fyrsta fjórðungi ársins 2005 nam 31,1 milljónum Bandaríkjadala (1,9 milljörðum íslenskra króna) samanborið við 30,7 milljónir á fyrra ári. Sala jókst um 2% í Bandaríkjadölum en mæld í staðbundinni mynt stóð salan í stað. Þegar tillit hefur verið tekið til aflagðrar starfsemi var vöxtur sölu í staðbundinni mynt 2%. Rekstrarhagnaður var 4,4 milljónir dala (271 milljón íslenskra króna*) og dróst saman um 3% milli ára.

Hagnaður fyrsta ársfjórðungs var 3,2 milljónir dala (195 milljónir íslenskra króna) og dróst saman um 3% frá fyrra ári.

Hagnaður á hlut (EPS) var 1,01 bandarísk sent samanborið við 1,03 sent á hlut á fyrsta ársfjórðungi 2004. Framlegð sem hlutfall af sölu var 60%, rekstrarhagnaður 14% og hagnaður 10%. EBITDA framlegð var 18%.

Rekstrareiningar samstæðunnar eru sambærilegar milli ára að öðru leyti en því að dótturfélagið Mauch Inc, í Dayton, Ohio í Bandaríkjunum var selt í árslok 2004. Sala Mauch á fyrsta fjórðungi 2004 nam 611 þúsund dölum. Söluvöxtur áframhaldandi starfsemi var 2%, mældur í staðbundinni mynt.

Á Norður-Ameríkumarkaði var ágætur vöxtur í sölu stoðtækja á milli ára, um 5% í Bandaríkjunum og yfir 26% í Kanada. Hinsvegar gekk sala stuðningstækja frekar illa í Bandaríkjunum og dróst saman um 17% frá fyrsta fjórðungi fyrra árs. Þessi samdráttur dró niður söluvöxt fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi á Norður-Ameríkumarkaði og í heild. Miklar breytingar á Generation II fyrirtækinu í kjölfar yfirtöku þ.m.t. á sölufyrirkomulagi og dreifiaðilum hafa haft þessi slæmu áhrif á sölu til skemmri tíma litið en gert er ráð fyrir bata þegar líður á árið.

Söluþróunin á Evrópumarkaði var óvenjuleg og dróst salan saman um 3% milli ára, mæld í staðbundinni mynt. Þessi markaður hefur verið í einna hröðustum vexti hjá Össuri undanfarin ár. Ástæður slaks gengis eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi voru skipulagsbreytingar hjá stærsta viðskiptavini Össurar í Suður-Evrópu, sem leiddu til tímabundins samdráttar í sölu til hans um 30%. Þessi viðskipti eru nú aftur komin í eðlilegt horf. Í öðru lagi gekk sala illa í Bretlandi, sérstaklega í mars. Stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins endar reikningsár sitt í mars og var búinn að ráðstafa fjárheimildum sínum þegar í febrúar. Þetta bitnaði harkalega á sölunni en hefur nú færst aftur í eðlilegt horf. Í þriðja og síðasta lagi er viðvarandi efnahagskreppa í Þýskalandi sem hefur leitt til niðurskurðar og sparnaðaraðgerða í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega á dýrum hátæknivörum. Á þessum markaði hefur sala dregist saman um 8% á fyrsta fjórðungi. Því miður er ekki útlit fyrir mikinn bata þar að sinni.

Á Norðurlöndum gekk vel. Söluaukning mæld í staðbundinni mynt var 15%.

Sala á öðrum alþjóðlegum mörkuðum sveiflast meira en annars staðar. Að þessu sinni jókst salan um 6%.

Framlegð fyrsta fjórðungs var 59,9% samanborið við 60,4% árið 2004. Sterk Evra á móti Bandaríkjadal eykur framlegð af vörusölu en óvenjulegur styrkur íslenskrar krónu grefur undan framlegðinni. Meðalgengi dals var 12% lægra í krónum á fyrsta fjórðungi 2005 en á fyrsta fjórðungi 2004. Breytingin frá fjórða ársfjórðungi 2004 er einnig umtalsverð eða 8%.

Sölu- og markaðskostnaður var óbreyttur frá fyrra ári og var kostnaðarhlutfallið 22% af sölu.

Rannsóknar- og þróunarkostnaður var einnig nánast sá sami og á fyrra ári og nam um 8% af sölu. Sem fyrr er allur rannsóknar- og þróunarkostnaður, sem fellur til innan fyrirtækisins, gjaldfærður í rekstrarreikningi.

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður var óbreyttur frá fyrsta fjórðungi fyrra árs eða um 16% af sölu. Handbært fé frá rekstri án vaxta var 2,4 milljónir Bandaríkjadala samanborið við 3,1 milljón árið 2004. Geta rekstrarins til að leggja til hreint veltufé og handbært fé er nánast óbreytt en ráðstöfun fjármuna til greiðslu skammtímaskulda lækkar handbært fé frá rekstri.

Heildareignir í árslok voru 106 milljónir Bandaríkjadala og dróst efnahagsreikningur félagsins saman um 3% frá áramótum. Eigið fé jókst um 5% og er eiginfjárhlutfall í lok mars 54% og hefur hækkað frá áramótum úr 50%. Til fjárfestinga var ráðstafað 1,4 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi.