Össur hagnaðist um 13,6 milljónir Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi (1.650 milljónir króna) sem var 477,2% aukning frá sama tímabili í fyrra. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 1,9 milljónir USD vegna veikingar evru gagnvart Bandaríkjadala.  Sölutekjur námu um 90 milljónum USD og hækkuðu um 10,7% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 19,6 m.USD, eða 21,7% af rekstrartekjum, sem var 15,4% vöxtur á milli ára. Á sama tíma í fyrra var EBITDA 20,8% af tekjum.

Að teknu tilliti til gengisbreytinga var söluvöxtur 12% en innri vöxtur 10% mælt í staðbundinni mynt.

Yfir 50% eiginfjárhlutfall

Á fyrri hluta ársins hagnaðist fyrirtækið um 23,3 milljónir USD sem var 135% aukning á milli ára. Sölutekjur hækkuðu um 11,4% og námu 176,5 milljónum USD. Arðsemi eiginfjár var 11,6% á tímabilinu. Heildareignir Össurar voru 580 milljónir USD í lok júní en efnahagsreikningurinn skrapp saman um 8% á fyrri hluta ársins vegna veikingar evru gagnvart dollar. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar nam 53,7% við lok annars ársfjórðungs.

„Árangurinn á öðrum ársfjórðungi var mjög góður á öllum mörkuðum og vöxtur í helstu vöruflokkum. Nýjum spelkum og stuðningsvörum var vel tekið á fyrri helmingi ársins og það á sinn þátt í aukinni sölu. Sala á stoðtækjum hefur gengið vel og aukist í öllum vörulínum. Sala á hátæknivörunum gengur áfram vel,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, í tilkynningu.