Samkvæmt ársuppgjöri var hagnaður Rafmagnsveitna ríkisins á árinu 2005 1.590 milljónir króna samanborið við 472 milljónir árið áður. Mismunurinn er vegna söluhagnaðar sem myndaðist vegna mismunar á bókfærðu og metnu verði flutningsvirkja sem lögð voru inn í flutningsfyrirtækið Landsnet hf á árinu.

Rekstrartekjur á árinu 2005 námu alls 7.511 milljónum króna, en 6.431 milljónum króna árið 2004. Tekjur vegna orkusölu stóðu í stað milli ára en aðrar rekstrartekjur jukust verulega eða um 1.100 milljónir kr.


Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 2.683 milljónir á árinu 2005 en 1.507 milljónir árið 2004. Afskriftir námu alls 930 milljónum króna á árinu 2005 en 1.067 á árinu 2004.

Hrein fjármagnsgjöld voru 163 milljónir á árinu 2005, en fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld voru hins vegar 32 milljónir á árinu 2004.

Eigið fé í lok ársins 2005 er 13.174 milljónir kr. en var 10.782 milljónir kr í lok árs 2004.

Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins er nú 69% en var 68% árið áður.

Rafmagnsveitur ríkisins eiga stóran hlut í tveimur hlutafélögum, sem stundað hafa undirbúning virkjanaframkvæmda undanfarin sex ár.

Eignarhlutur í Héraðsvötnum ehf er 50% (30 milljónir), en Norðlensk orka ehf á 50%. Endurskoðunarskrifstofa KPMG er endurskoðandi Héraðsvatna ehf.

Eignarhlutur í Sunnlenskri orku er 90% (72 milljónir), en Eignarhaldsfélag Hveragerðis og Ölfuss á 10%. Endurskoðunarskrifstofa Deloitte&Touche er endurskoðandi Sunnlenskrar orku ehf.

Eignarhlutur RARIK í öðrum félögum er samtals rúmar 1.362 milljónir kr. Þar af er hlutur í Landsneti hf kr 1.329 milljónir sem er 24,15% eignarhlutur.

Stefnt er að því að orkusalan verði sett í sérstakt hlutafélag í sameiginlegri eign RARIK, Orkubús Vestfjarða og Landsvirkjunar. Þá eru allar líkur til þess að RARIK verði breytt í hlutafélag upp úr miðju ári 2006. Áætluð afkoma RARIK á árinu 2006 er ekki í samræmi við afkomuna 2005, en þó er gert ráð fyrir að hagnaður verði af starfseminni.