Hagnaður Rekstrarfélags Kaupþings banka hf. eftir skatta á fyrri hluta ársins 2006 nam 1.057 milljónum króna, samanborið við 371 milljónir króna á sama tímabili í fyrra, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. er dótturfélag Kaupþings banka hf. og hluti af samstæðureikningi bankans og dótturfélaga hans.

Hreinar rekstrartekjur námu 1.812 milljónum króna, en voru 793 milljónir króna á fyrri árshelmingi árið áður.

Rekstrargjöld námu 520 milljónum króna, en þau voru 341 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Eigið fé sjóðsins nam í lok júní 2.726 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, miðað við 1.169 milljónir króna fyrir ári síðan. Eiginfjárhlutfall sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er 60,0%, en samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8,0%.

Rekstrarfélagið sér meðal annars um eignastýringu og rekstur verðbréfasjóða, fjárfestingasjóða og fagfjárfestasjóða. Fagfjárfestasjóðurinn CDO 1, ICEQ verðbréfasjóður og fagfjárfestasjóðurinn KB ABS 1 eru skráðir í Kauphöll Íslands. Sérstakir árshlutareikningar eru gerðir fyrir þá sjóði og þeir birtir sérstaklega í fréttakerfi Kauphallarinnar.