Hagnaður Reykjanesbæjar árið 2007 nemur tæplega 2,5 milljörðum króna, þar af er söluhagnaður af bréfum í HS hf tæpir 1,9 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitafélaginu.

Þar segir að eignir á hvern íbúa vaxa um 15,8% eða sem nemur 123 þúsund krónur á milli ára og eru nú 901 þúsund kr. Skuldir á hvern íbúa lækka um 6,7% eða sem nemur 23 þúsund krónur og eru nú 324 þúsund krónur.

Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs hefur vaxið úr 33,5%  í 45,8% á milli ára.

„Þessar niðurstöður benda til að um leið og íbúum Reykjanesbæjar fjölgar ört hefur efnahagsleg staða sveitarfélagsins styrkst umtalsvert,“ segir í tilkynningunni.

Í rekstrarreikningi 2007 kemur fram að heildarhagnaður samstæðu (bæjarsjóður og aðrar stofnanir bæjarins s.s. rekstur hafna og félagslegs húsnæðis) nemur tæplega 2,5 milljörðum króna. Hagnaður bæjarsjóðs er rúmir 2 milljarðar króna.

Rekstrartekjur bæjarsjóðs hafa vaxið um 716 milljónir króna milli áranna 2006 og 2007 og nema nú tæpum 5,7 milljörðum króna.

Rekstrartekjur samstæðu nema tæpum 6,2 milljörðum króna. Tekjur af hlutdeildarfélögum nema um 1,2 milljörðum króna.

Eignaaukning bæjarsjóðs nemur um 2,7 milljörðum króna milli ára 2006 og 2007.

Eignir bæjarsjóðs í efnahagsreikningi eru tæpir 12 milljarðar króna í árslok 2007.

„Þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um liðlega 1.300 á milli ára hafa eignir reiknaðar á hvern íbúa vaxið um 15,8% eða um 123 þúsund króna og nema eignir því 901 þúsund krónum á íbúa," segir í tilkynningunni.

Eignaaukning samstæðu frá árinu 2006 nemur rúmum 4 milljörðum króna árið 2007 og eru nú alls 17,7 milljarðar króna.

Skuldir bæjarsjóðs 2007 nema tæpum 6,5 milljörðum króna. Skuldaaukning bæjarsjóðs milli áranna 2006 og 2007 nemur um 306 milljónum króna. Vegna fjölgunar íbúa hafa skuldir á hvern íbúa lækkað um 6,7% eða um 23 þúsund krónur á milli ára. Skuldir bæjarsjóðs á hvern íbúa eru nú 324 þúsund krónur.

Fullt virði HS hf. ekki í efnahagsreikningi.

Núverandi eign Reykjanesbæjar í HS hf. er metin á  um 17 milljarða króna. Samkvæmt reikningsskilareglum sveitarfélaga er það virði ekki skráð í  efnahagsreikning nema að þriðjungs hluta. Hið sama á við um eignavirði bæjarins í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf.

Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs hefur vaxið úr 33,5% frá fyrra ári í 45,8%.