Samkvæmt árshlutauppgjöri jókst velta dönsku ölgerðarinnar Royal Unibrew um 13% á milli ára og nam 1,8 milljörðum danskra króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaður fyrir skatt dróst hins vegar saman og nam um 37,5 millljónum danskra króna, samanborið við 45,9 milljónir á sama tímabili árið á undan. Framlegðin minnkaði úr 3,7% niður í 3,1%.
Eins og kunnugt er fer FL Group með fjórðungshlut í félaginu, eða 24,4%. Royal Unibrew er annar stærsti drykkjarvörframleiðandi Skandinavíu. Heildarsala Royal Unibrew á fyrri helmingi þessa árs jókst um 9,5% í lítrum talið, miðað við sama tímabil árið áður. Sölutekjurnar jukust um tæplega 13% og námu samtals 1,8 milljörðum danskra króna á tímabilinu.
Verri afkoma ölgerðarinnar á tímabilinu skýrist fyrst og fremst af auknum kostnaði, erfiðum rekstri í Póllandi og aukinni samkeppni í Danmörku. Félagið gerir ráð fyrir að hagnaður það sem eftir er árs verði í kringum 270 milljónir danskra króna, sem er talsverð lækkun frá fyrri spám.