Samherji hf. var rekinn með 1.065 milljón króna hagnaði á fyrri helmingi ársins 2005 en hagnaður á öðrum ársfjórðungi var 390 milljónir króna. Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu sex mánuði ársins námu 11.627 milljónum króna og rekstrargjöld voru 9.648 milljónir. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam 1.979 milljónum króna, afskriftir námu 674 milljónum og fjármagnsliðir voru neikvæðir um 245 milljónir króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 312 milljónum króna, hagnaður fyrir skatta var 1.372 milljón króna og hagnaður eftir skatta og hlutdeild minnihluta nam 1.065 milljónum króna eins og áður segir.

Veltufé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins var 1.038 milljónir króna og handbært fé frá rekstri var 415 milljónir króna.

Á tímabilinu seldi félagið fiskimjölsverksmiðju sína í Grindavík en verksmiðjan skemmdist í bruna í febrúar. Auk þess seldi félagið fiskiskipin Margréti EA og Oddeyri EA. Hagnaður af sölu framangreindra eigna nam 560 milljónum og er hann færður meðal rekstartekna.

Heildareignir samstæðunnar í júnílok voru bókfærðar á 29,3 milljarða króna. Þar af voru fastafjármunir tæplega 20,6 milljarðar og veltufjármunir 8,7 milljarðar. Skuldir samstæðunnar námu tæplega 17 milljörðum króna og eigið fé var 12 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 41 % og veltufjárhlutfall 1,08 á sama tíma.

Í byrjun ágúst seldi félagið eignarhluti í Burðarási hf., Íslandsbanka hf. og Kaupþing banka hf. auk þess sem félagið keypti og seldi hlutabréf í Burðarási hf. á grundvelli áður gerðra samninga. Samanlagður hagnaður af sölu þessara bréfa nam 1.446 milljónum króna fyrir skatta.

Þegar horfur fyrir síðari hluta ársins eru skoðaðar þá er ljóst að mjög sterkt gengi krónunnar og launaskrið í kjölfar þenslu á vinnumarkaði mun hafa neikvæð áhrif á rekstur útflutningsfyrirtækja. Því má gera ráð fyrir að afkoma félagsins af reglulegri starfsemi á síðari hluta ársins markist af því.