Samherji hf. var rekinn með 1.098 milljón króna hagnaði á fyrri árshelmingi 2004 en hagnaður á öðrum ársfjórðungi var 460 milljónir króna. Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu sex mánuði ársins námu 7.236 milljónum króna en rekstrargjöld voru 6.116 milljónir. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam 1.120 milljónum króna sem er 6,7% samdráttur frá sama tímabili í fyrra. Afskriftir námu 554 milljónum og hækkuðu mjög lítilega milli ára. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 40 milljónum króna en voru 57 milljónir í fyrra.

Samherji og dótturfélag eiga 14 hlutdeildarfélög og voru áhrif þeirra félaga jákvæð um 573 milljónir króna á tímabilinu en þar af var jákvæð hlutdeild í rekstri Kaldbaks 470 milljónir króna.

Samherji seldi á tímabilinu allan eignarhlut sinn í Hraðfrystistöð Þórshafnar og nam hagnaður af sölunni 308 milljónum króna og er hann færður meðal fjármagnsliða í rekstrarreikningi.

Veruleg aukning hefur orði á umsvifum söludeildar félagsins og sala fyrir þriðja aðila jókst um tæpan 1 milljarð króna frá sama tímabili árið áður.

Á aðalfundi Samherja voru áætlanir félagsins fyrir árið 2004 kynntar og var gert ráð fyrri að afkoma félagsins yrði svipuð og afkoma ársins 2003. Rekstrarniðurstaða á fyrri helmingi ársins gefur ekki tilefni til endurskoðunar á þeirri áætlun.