Samherji hf. var rekinn með 676 milljón króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi 2005. Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu þrjá mánuði ársins námu 5.697 milljónum króna og rekstrargjöld voru 5.008 milljónir. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam 689 milljónum króna, afskriftir námu 334 milljónum og fjármagnsliðir voru jákvæðir um 145 milljónir króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam 361 milljón króna, hagnaður fyrir skatta var 861 milljón króna og hagnaður eftir skatta og hlutdeild minnihluta nam 676 milljónum króna eins og áður segir.
Veltufé frá rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins var 502 milljónir króna og handbært fé frá rekstri 260 milljónir króna.

Heildareignir samstæðunnar í marslok voru bókfærðar á 29,1 milljarð króna. Þar af voru fastafjármunir rúmlega 21,1 milljarður og veltufjármunir rúmir 7,9 milljarðar. Skuldir samstæðunnar námu 16,6 milljörðum króna og eigið fé 12,1 milljarði króna. Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 41,8% og veltufjárhlutfall 0,95 á sama tíma.

Allnokkrar breytingar hafa orðið á samstæðu félagsins frá sama tímabili fyrra árs og átti Samherji hf. sjö dótturfélög í lok tímabilsins í stað tveggja á sama tímabili í fyrra. Áhrif dótturfélaga voru í heild neikvæð um 74 milljónir króna.

Í lok mars gerðu nokkrir af stærstu hluthöfum í Samherja hf. með sér samkomulag um stjórnun og rekstur félagsins. Í framhaldi af því hefur öðrum hluthöfum í félaginu verið gert yfirtökutilboð á genginu 12,1 og gildir tilboðið til 5. júlí n.k. Í kjölfarið munu yfirtökuaðilar fara þess á leit við stjórn félagsins að hún óski eftir að hlutabréf félagsins verði afskráð úr Kauphöll Íslands. Af þessum ástæðum hafa stjórnendur félagsins ákveðið að fresta upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla en félagið mun hins vegar breyta reikningsskilum sínum til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla fyrir þau tímatakmörk sem sett eru fyrir félög sem hafa skuldabréf sín skráð í Kauphöll Íslands.