Finnska fjármálaþjónustufyrirtækið Sampo, sem Exista er stærsti hluthafinn í, greindi frá því í dag að hagnaður félagsins á fjórða ársfjórðungi er umfram spár. Ástæðan er góð afkoma af farsteigna- og slysatryggingasviði félagsins.

Hagnaður félagsins fyrir skatta nam 334 milljónum evra, sem samsvarar 29,5 milljörðum króna, en samkvæmt spám greiningaraðila hefði hagnaðurinn numið 324 milljónum evra.

Sampo leggur til að arðgreiðslur nemi 1,2 evrum á hlut, en Exista keypti 9,5% hlut í Sampo af íranska kaupsýslumanninum Robert Tchenguiz fyrir 109 milljarða króna og jók þar með hlut sinn í 15,5%.

"Þetta er góð afkoma og háar arðgreðslur," segir Bengt Dahlstrom, sérfræðingur hjá eQ Bank.

Í tilkynningu frá Sampo segir á fyrirtækið búist við góðri afkomu á árinu 2007. Gengi hlutabréfa Sampo hækkaði um 0,4% í 21,25 evrur hluturinn í kjölfar birtingu uppgjörsins.

Sérfræðingar búast nú enn frekar við að Sampo geri tilraun til að kaupa önnur fjármálafyrirtæki, félagið er vel stætt fjárhagslega til að fjármagna yfirtökur eftir söluna á bankastarfseminni og góða afkomu.