Hagnaður Samskipa var 708 milljónir króna eftir skatta árið 2004 en árið áður var hagnaður félagsins 366 milljónir króna eftir skatta. Aukningin er 342 milljónir króna, eða ríflega 90 af hundraði. Heildartekjur Samskipa á liðnu ári námu 23 milljörðum króna og hækkuðu um tæpa sex milljarða frá árinu áður, eða um 33,5 %.

Frá árinu 2000 hafa tekjur Samskipa tvöfaldast og vöxtur starfseminnar verið stöðugur, ef frá er skilið árið 2002. Ríflega helmingur teknanna í fyrra kom frá erlendri starfsemi félagsins og mikil tekjuaukning varð einnig af innlendu starfseminni. Heildareignir Samskipa í árslok 2004 námu 8,1 milljarði króna. Eigið fé var 2,7 milljarðar í árslok 2004 og jókst um 457 milljónir króna frá ársbyrjun, sem gerir 33,4% eiginfjárhlutfall. Veltufjárhlutfall var 1,17 í árslok 2004 og handbært fé frá rekstri 1.256 milljónir króna en var 946 milljónir árið 2003.

Helstu fjárfestingar hafa tengst byggingu nýrra höfuðstöðva og endurnýjun á tækjakosti.. Þá er félagið að ráðast í umfangsmikil kaup á erlendu flutningafyrirtæki sem að hluta til á að fjármagna með nýju hlutafé. Tillaga þess efnis liggur fyrir aðalfundi Samskipa, sem verður haldinn kl. 17:00 í dag, 8. mars, í ráðstefnusal félagsins í nýju höfuðstöðvunum í Kjalarvogi.

Besta rekstrarár í sögu Samskipa

Mikill uppgangur einkenndi starfsemi Samskipa á Íslandi á árinu 2004 segir í tilkynningu félagsins. Útflutningur félagsins jókst mun meira en ráð var fyrir gert og mikil aukning varð einnig í innflutningi. Þar munaði mestu um aukinn innflutning bifreiða og flutninga vegna uppbyggingar stóriðju eystra. Flutningar stórflutningadeildar Samskipa gengu einnig mjög vel í fyrra og rekstur Landflutninga var í góðu jafnvægi. Þá var afkoma dótturfélagsins Jóna Transport í fyrra sú besta frá stofnun þess árið 2000.

Ötullega var unnið að uppbyggingu félagsins heima og var m.a. öll starfsemin á höfuðborgarsvæðinu flutt í nýtt hús við Kjalarvog í árslok og eru þar nú undir einu þaki skrifstofur félagsins, Vörumiðstöð Samskipa, Landflutningar og Jónar Transport. Þá var skipum fjölgað í siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu og hafnar siglingar til og frá Færeyjum, sem eru nú hluti af heimamarkaði félagsins. Í kjölfar vaxandi umsvifa innanlands var fjölgað í framkvæmdastjórn Samskipa og sett á laggirnar staða framkvæmdastjóra innanlandssviðs.

Erlendis óx starfsemi Samskipa mest í Norður-Evrópu árið 2004. og voru nýjar skrifstofur opnaðar í Skotlandi, á Englandi, í Úkraínu, tvær í Þýskalandi og ein í Kína. Þá tók félagið yfir rekstur hollenska flutningafyrirtækisins Nedshipping Liner Agencies BV í byrjun árs 2004 og í febrúar tók dótturfélag Samskipa, Van Dieren Maritime, við rekstri vöruflutningalestar milli Svíþjóðar og Þýskalands. Þá fjölgaði dótturfyrirtækið TECO Lines AS, viðkomum í Finnlandi.

Mikil breyting er framundan á starfsemi samskipa erlendis í kjölfar kaupa félagsins á hollenska flutningafélaginu Geest North Sea Line, sem tilkynnt var um í liðinni viku. Lætur nærri að velta Samskipa tvöfaldist milli ára vegna kaupanna sem og innri vaxtar og verði um 45 milljarðar íslenskra króna á þessu ári. Geest verður rekið sem dótturyfirtæki Samskipa og verður eitt stærsta gámflutningafélag í siglingum innan Evrópu.
Eftir kaupin á Geest verður heildarflutningamagn Samskipa um 800 þúsund gámaeiningar á ári og félagið verður með 24 skip í föstum áætlunarsiglingum og 15 skip í öðrum verkefnum þ.á.m. frystiflutningum, auk fjölda leiguskipa í tímabundnum verkefnum. Starfsmönnum fjölgar um fimmtung og verða hátt í 1.200 talsins, þar af um 500 erlendis. Skrifstofum félagsins fjölgar um 12 og verða 45 talsins í 19 löndum, auk þess sem umboðsmenn eru starfandi um allan heim.

Samskip samanstanda af móðurfélaginu Samskipum hf. og 17 dótturfélögum. Hlutahafar voru 224 talsins í árslok 2004, samanborið við 390 í byrjun árs, og áttu þrír hluthafar yfir 10% af útgefnu hlutfé í árslok. Þeir eru Ker hf. (55,8%), Mastur hf. (10,8%) og Olíuverslun Íslands hf. (10,32%).