Hagnaður Samson eignarhaldsfélags ehf. nam 13.221 milljónum króna á árinu 2006 samkvæmt rekstrarreikningi sem birtur hefur verið í Kauphöllinni og eykst um 62% frá fyrra ári. Þar sem tilkynnt hafði verið um að hagnaður félagsins á fyrri hluta ársins 2006 hefði numið alls 12.184 milljónum króna þá sést að hagnaðurinn hefur nánast allur fallið til á fyrri hluta ársins.

Samson eignarhaldsfélag hagnaðist um 8.262 milljónir árið 2005, árið 2004 nam hagnaðurinn 5.125 milljónum króna.

Bókfært eigið fé Samson í árslok 2006 nam 27.088 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi og er eiginfjárhlutfallið 29,2%.

Sé hins vegar miðað við markaðsverð  eignarhluta í Landsbanka Íslands hf. í árslok næmi eigið fé félagsins 73.063 milljónum króna að teknu tilliti til tekjuskattsáhrifa og eiginfjárhlutfallið væri 49,0%.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 1.000 milljónir króna til hluthafa á árinu 2007. Vísað er til ársreiknings um ráðstöfun hagnaðar og aðrar breytingar á eiginfjárreikningum.


Útgefið hlutafé félagsins nam í ársbyrjun 1.000 milljónum króna að nafnverði, en félagið átti eigin bréf að nafnverði 135 milljónir króna. Á árinu var hlutafé félagsins lækkað um 50 milljónir króna að nafnverði og keypti félagið á árinu eigin hluta að nafnverði 10 milljónir króna. Útistandandi hlutafé nam því í árslok 855 milljónir króna og skiptist það á fjóra hluthafa. Af þeim áttu tveir hluthafar meira en 10% hluta í félaginu, en það eru félög í eigu þeirra feðga, Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors. Félögin heita Givenshire og Bell Global.

Félagið keypti í lok júní meirihluta hlutafjár í eignarhaldsfélaginu Samson Properties ehf. og nam kaupverð félagsins 3.703 milljónum króna. Í kjölfarið var hlutafé Samson Properties ehf. aukið um 2.179 milljónir króna og nam því fjárfesting ársins 5.882 milljónum króna. Einnig fjárfesti félagið á árinu í Ópera fjárfestingarfélag ehf. og nam fjárfestingin 1.496 milljónum króna. Félagið er fjárfestingarfélag. Tilgangur þess er almenn fjárfestingarstarfsemi og skyldur rekstur.