Hagnaður Samsons eignarhaldsfélags á fyrri hluta ársins nam alls 12.184 milljónum króna samanborið við 4.477 milljóna króna hagnað á sama tíma fyrir ári. Þetta kemur fram í tilkynningu eignarhaldsfélagsins til Kauphallarinnar.

Í tilkynningunni kemur fram að beitt sé hlutdeildaraðferð við að gera grein fyrir eignarhluta félagsins í Landsbanka Íslands hf. Samson er fjárfestingarfélag og er tilgangur þess almenn fjárfestingarstarfsemi og skyldur rekstur. Tilgangi félagsins var breytt þann 29. júní 2006, en áður hafði hann verið takmarkaður við eignarhald á hlutafé í Landsbanka Íslands hf.

Fram kemur að Samson hafi fjárfest á fyrri hluta ársins í hlutafé í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 132 m.kr. sem keypt var á 2.986 m.kr. Eignarhlutinn var 4.559 m.kr. að nafnverði í júnílok og nam hann 41,37% af heildarhlutafé bankans. Markaðsverð eignarhlutans, sem bókfærður er á 56.575 m.kr., nam 92.093 m.kr. í júnílok. Gengi hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. hefur hækkað frá júnílokum og er nú um 24,5 en það var 20,2 í júnílok.

Eftir að tilgangi félagsins var breytt tók það þátt í hlutafjáraukningu í Samson Properties ehf. og nam kaupverð hlutafjárins samtals 3.703 m.kr. Samson Properties ehf. er eftir aukninguna í meirihlutaeigu félagsins. Samson Properities ehf. er fasteignafélag sem sérhæfir sig í rekstri, þróun og fjárfestingum í fasteignum og fasteignatengdum verkefnum í Evrópu.

Bókfært eigið fé í júnílok nam 26.562 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og hefur hækkað um 85% frá árslokum 2005. Ef eignarhlutur félagsins í Landsbanka Íslands hf. væri færður til eignar á markaðsverði væri eigið fé félagsins 55.687 m.kr. að teknu tilliti til tekjuskattsáhrifa. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 170% þegar miðað er við hagnað samkvæmt rekstrarreikningi.