Hagnaður sænska flutingabílaframleiðandans Scania óx um 16% frá ári til árs fyrstu sex mánuði ársins, segir í Vegvísi Landsbankans.

Hreinn hagnaður félagsins hækkaði um rúmlega 300 milljónir sænskra króna á tímabilinu og nemur 2,32 milljörðum, eða um 19 milljörðum íslenskra króna.

Hagnaður á hvern hlut hækkaði í 11,58 sænskar krónur á tímabilinu úr 10 krónum árið áður. Tekjur félagsins hækkuðu um 12% á fyrstu sex mánuðum ársins og nema 30,44 milljörðum sænskra króna, sem samsvarar 252 milljörðum íslenskra króna.

Hagnaðaraukning er á rekstri Scania þrátt fyrir að pantanir nýrra vörubíla hafi staðið í stað á milli ára. Í frétt Vegvísi Landsbankans segir hins vegar að ahendingar nýrra bíla hafi aukist talsvert á fyrstu sex mánuðum ársins, miðað við sama tímabil árið 2004. Félagið hefur aukið markaðshlutdeild sína naumlega í Vestur-Evrópu og hækkar hún í 13,5% úr 13,1%.

Í Vegvísi segir að Leif Östling, forstjóri Scania, sé bjartsýnn á framtíð félagsins "og hann telur að markaðurinn sem félagið starfar á muni einkennast af mikilli eftirspurn á komandi misserum. Gengi bréfa Scania hefur hækkað um tæp 8% frá áramótum."