Hagnaður Skandinaviska Enskilde Bank (SEB) á þriðja ársfjórðungi var um 2 milljarðar sænskra króna (tæpir 30 milljarðar ísl.króna) og dróst saman um 43% frá fyrri ársfjórðungi og 46% milli ára.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu.

Tekjur félagsins á tímabilinu námu um 8,7 milljörðum sænskra króna og dróst saman um 8% milli ára.

Í uppgjörstilkynningu félagsins kemur fram að afskriftir bankans voru tæpar 900 milljónir sænskra króna.

Bankinn afskrifaði um 540 milljónir sænskra króna vegna áhrifa tengdum fjárfestingum í og með bandaríska fjárfestingabankanum Lehman Brothers. Aðrar afskriftir námu tæpum 350 milljónum sænskra króna vegna annarra fjárfestinga.