Hagnaður SH fyrir afskriftir og fjármagn (EBITDA) nam alls 504 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi borið saman við 430 milljónir á sama tíma fyrir ári. Hagnaður fyrir skatta var 205 milljónir á móti 154 milljónum árið á undan.

Í frétt frá fyrirtækinu segir að rekstrartekjur samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi ársins hafi aukist um 10% miðað við sama ársfjórðung 2003 eða úr 14,1 milljarði króna í 15,5 milljarða króna. "Um raunaukningu er að ræða þar sem óverulegar breytingar voru á meðalgengi viðskiptamynta samstæðunnar.

Hreinar rekstrartekjur í hlutfalli af sölu voru 11,5% í fjórðungnum móti 10,7% árið áður en hlutfall annarra rekstrargjalda af vörusölu hækkaði úr 7,6% í 8,3%. EBITDA hlutfall hækkaði úr 3,1% í 3,3%.

Í fjórðungnum gekk félagið frá sölu á fasteign sinni við Aðalstræti í Reykjavík og nam söluhagnaður 41 milljónum króna að teknu tilliti til tekjuskatts.

Félagið er ekki lengur með fulltrúa í stjórnum Fishery Product International Ltd. og Scandsea Holding og eru eignarhlutirnir ekki færðir samkvæmt hlutdeildaraðferð frá og með 1. apríl 2004. Þess í stað er eignarhlutur í Fishery Product International færður á markaðsverði á reikningsskiladegi og er breyting á markaðsverði færð í gegnum eigið fé í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Eignarhlutir í Scandsea Holding er færður á kostnaðarverði að teknu tilliti til niðurfærslu.

Hagnaður af hefðbundinni starfsemi félagsins í fjórðungnum var undir áætlunum en að teknu tilliti til söluhagnaðar náðust afkomumarkmið að mestu.

Fyrri árshelmingur ? EBITDA eykst um 40%

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 1.137 milljónum króna samanborið við 811 milljónir króna árið áður. Hagnaður fyrir skatta nam 559 milljónum króna miðað við 263 milljónir króna á sama tímabili 2003. Hagnaður fyrstu sex mánuði ársins nam 341 milljón króna samanborið við 158 milljónir króna árið áður. Hagnaður á hlut í árshelmingnum (EPS) var 0,23 kr. samanborið við 0,11 kr. árið áður. Veltufé frá rekstri nam 669 milljónum króna samanborið við 503 millj. króna árið áður.

Rekstrartekjur SH námu 31,8 milljörðum króna samanborið við 27,1 milljarð króna árið áður og nemur aukningin um 4,7 milljörðum kr. eða 17%. Aukninguna má að mestu rekja til félaga sem ekki tilheyrðu samstæðunni á sama tíma í fyrra, Ocean to Ocean í Bandaríkjunum og Barogel í Frakklandi.

Hreinar rekstrartekjur í hlutfalli af sölu voru 11,7% á tímabilinu janúar - júní samanborið við 11,1% árið áður og endurspeglast sú aukning í EBITDA-hlutfalli sem fer úr 3,0% í 3,6%.

Sala Icelandic USA nam 166 milljónum Bandaríkjadala sem er um 60% aukning frá fyrra ári. Aukningin skýrist fyrst og fremst af kaupunum á Ocean to Ocean en innri vöxtur var um 4%. Hagnaður félagsins á tímabilinu nær tvöfaldaðist frá fyrra ári.

Í Bretlandi jókst salan um 2% frá fyrra ári og nam 59 milljónum punda. Sala unninna, frystra sjávarafurða í Grimsby dróst lítillega saman en óveruleg breyting var á veltu dótturfélags Coldwater, Icelandic UK. Talsverð aukningin varð hins vegar í kældum vörum frá Redditch, en sala þeirra jókst um 36% frá fyrra ári. Verulegur bati hefur orðið á rekstri félagsins í Bretlandi frá fyrra ári og var hagnaður af rekstri félagsins miðað við tap á sama tímabili 2003. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) jókst um 69%. Salan í Bretlandi skiptist þannig að um 51% eru frystar unnar sjávarafurðir frá Grimsby, um 22% eru kældar afurðir frá Redditch og 29% eru afurðir frá sölufyrirtækinu Icelandic UK. Í kjölfar á kaupum á dótturfélaginu Seachill Ltd. er gert ráð fyrir að velta samstæðunnar í Bretlandi nemi um 215 milljónum punda á ári og að ríflega helmingur hennar verði í kældum afurðum.

Afkoma dótturfélagsins í Frakklandi var undir áætlun bæði hvað varðar sölu og afkomu. Rekstur annarra fyrirtækja samstæðunnar var í samræmi við áætlanir.

Efnahagur

Heildareignir 30. júní 2004 námu 26,0 milljörðum og er það lækkun um tæplega hálfan milljarð frá áramótum. Óverulegar breytingar voru á einstökum eignaliðum. Skuldir lækkuðu um 622 milljónir króna og eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 17%. Arðsemi eigin fjár var 17% samanborið við 8% á sama tímabili 2003.

Horfur

Fyrsti ársfjórðungur gekk nokkru betur en áætlun gerði ráð fyrir, en annar ársfjórðungur var lítið eitt undir áætlun. Í tilkynningu í tengslum við kaup á dótturfélaginu Seachill Ltd. kom fram að í endurskoðaðri rekstraráætlun væri gert ráð fyrir að velta ársins 2004 yrði um 68 milljarðar króna og að hagnaður ársins yrði um 750 milljónir króna. Seachill Ltd. mun verða meðtalið í samstæðunni frá og með kaupdegi, 19. júlí 2004 og frá þeim degi mun jafnframt falla á félagið aukinn fjármagnskostnaður og niðurfærsla viðskiptavildar í tengslum við fjárfestinguna. Umrædd rekstraráætlun er óbreytt."