Hagnaður SÍF á fyrri helmingi ársins nam 2,8 milljónum evra miðað við 1,7 milljóna evra tap á síðasta ári. Auking tekna nam 12% á 2. ársfjórðungi og 9,4% á 1. ársfjórðungi hjá breyttu félagi. EBITDA nam 50,5 milljónum evra eða 9,1% á 12 mánaða tímabili hjá breyttu félagi.

Mikilvægum áfanga var náð í endurskipulagningu SÍF með sölu Iceland Seafood International, Tros og Saltkaupa segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Í tilkynningunni kemur fram að sterk sjóðsstaða upp á 55,2 milljónir evra styrkir áframhaldandi vöxt samstæðunnar. Hækkun hráefnisverðs hafði áhrif á afkomu, sérstaklega á norskum laxi sem varð vegna innflutningstolla af hálfu Evrópusambandsins.

"Síðustu sex mánuði hefur framkvæmdastjórn SÍF fylgt eftir stefnumótun þess efnis að félagið verði leiðandi á sviði framleiðslu og sölu fullunninna matvæla fyrir Evrópumarkað, sérstaklega á sviði virðisaukandi hátíðarvara og tilbúinna rétta. Með sölu á Iceland Seafood International, Trosi og Saltkaupum á fyrri hluta þessa árs og Iceland Seafood Corporation í
árslok 2004 var stórum áfanga náð í stefnumótun félagsins. SÍF mun halda áfram að styrkja starfsemi núverandi dótturfélaga samstæðunnar og huga að fjárfestingum sem styrkt geta markaðsstöðu félagsins, stöðugan vöxt og tryggt hluthöfum góða arðsemi af fjárfestingu sinn til lengri tíma litið," segir Jakob Sigurðsson, forstjóri SÍF í tilkynningu félagsins.

"Eins og við spáðum í maí hafði umtalsverð hækkun hráefnisverðs samanborið við samatíma í fyrra umtalsverða erfiðleika í för með sér á 2. ársfjórðungi. Áhrif hækkandi laxaverðs voru veruleg þar sem SÍF er með leiðandi stöðu í framleiðslu og sölu reyktra laxafurða á lykilmörkuðum sínum í Vestur-Evrópu. Þegar horft er til næsta ársfjórðungs er ljóst að
hráefnisverð mun einnig hafa umtalsverð áhrif á afkomuna. Hins vegar gefur söluaukning umfram væntingar á öllum lykilmörkuðum félagsins tilefni til bjartsýni. Gert er ráð fyrir að söluaukning, ásamt afnámi verndartolla á norskar laxaafurðir og lækkandi hráefnisverð, muni leiða til bættrar afkomu á síðasta fjórðungi þessa almanaksárs," segir Jakob ennfremur.