Hagnaður SÍF hf. fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) á 1. ársfjórðungi 2005 nam 8,4 milljónum evra sem er nærri þreföldun á EBITDA í 1. ársfjórðungi 2004 og yfir fjárhagsáætlun. Hagnaður tímabilsins nam 2,8 milljónum evra og meira en tvöfaldaðist miðað við sama ársfjórðung 2004. "Góð söluaukning varð á öllum mörkuðum og framlegð hefur aukist verulega en hún endurspeglar breytta samsetningu SÍF-samstæðunnar og skipulag þar sem skýrari áhersla er á framleiðslu verðmætra tilbúinna matvæla fyrir evrópskan markað," segir í tilkynningu félagsins.

Önnur helstu atriði í 1. ársfjórðungi 2005:
Handbært fé frá rekstri var 68,6 milljónir evra.
Labeyrie Group er nú í fyrsta sinn að fullu í reikningsskilum félagsins.
Sterk sjóðsstaða sem nemur 51 milljón evra.
Tilkynnt var um sölu á Iceland Seafood International og Tros.
Vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 84 milljónir evra frá ársbyrjun. Árshlutareikningur er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (e. IFRS)

?Góð afkoma á fyrsta ársfjórðungi endurspeglar jákvæð áhrif endurskipulagningar á starfsemi SÍF-samstæðunnar en megináherslan er á verðmætari vöruflokka tilbúinna rétta og hátíðarvara. Þessi ársfjórðungur er sá fyrsti þar sem áhrifa kaupanna á Labeyrie gætir að fullu. Þótt hann sé ekki sá annasamasti í sölu vegna árstíðabundinna sveiflna er afkoman umfram áætlanir. Í ljósi þeirra erfiðu markaðsaðstæðna sem ríkt hafa í matvælaiðnaðinum frá upphafi ársins er ég sérstaklega ánægður með þá söluaukningu sem orðið hefur hjá félaginu. Ráðstafanir Evrópusambandsins vegna innkaupa á ferskum laxi frá ríkjum utan sambandsins eru áhyggjuefni en búast má við að þessi mál skýrist á næstu vikum. Þegar horft er til framtíðar tel ég góðar horfur á áframhaldandi vexti félagsins,? segir Jakob Sigurðsson, forstjóri SÍF.

Frakkland, Bretland og Spánn eru lykilmarkaðir SÍF. Sala jókst á öllum þessum mörkuðum samanborið við fyrsta ársfjórðung 2004. Í Frakklandi var páskasalan, sem nú fellur innan fyrsta ársfjórðungs, yfir væntingum. Söluverðmæti reyktra laxaafurða jókst um meira en 18% og söluverðmæti foie gras (anda- og gæsalifur) um meira en 20%. Sala frosinna afurða var hins vegar undir væntingum. Á Spáni jókst sala félagsins um meira en 13% samanborið við sama tímabil í fyrra. Góð söluaukning varð á Bretlandsmarkaði, einkum hjá Lyons Seafoods og Farne, en Farne hefur aukið sölu til stærstu viðskiptavina sinna, s.s. Tesco. Lyons hefur fært út kvíarnar í sölustarfsemi félagsins samfara áframhaldandi vexti í viðskiptum við núverandi viðskiptavini, s.s. Sainsbury's, þar sem félagið var verðlaunað sem ?besti samstarfsaðilinn? (Top Supplier).

Framtíðarhorfur er góðar fyrir endurskipulagt félag. Má vænta þess að afkoma félagsins batni og virðisauki verði skapaður fyrir hluthafa. Áætlað er að metfjöldi nýrra vara verði markaðssettur á næstu mánuðum sem endurspeglar beinskeyttari áherslur á þróunarstarf og vöxt. Tryggja á áframhaldandi góða afkomu dótturfélaga en áfram verður leitað tækifæra til að styrkja markaðsstöðu félagsins með kaupum á félögum sem falla að kjarnastarfsemi þess.