Síldarvinnslan hf. var rekin með 728 milljóna króna hagnaði á fyrri árshelmingi 2005. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, er 1201 milljónir króna. Veltufé frá rekstri nam 876 milljónum króna og handbært fé frá rekstri nam 578 milljónum króna.

Rekstrartekjur samstæðunnar á tímabilinu námu 4.887 milljónum króna en rekstrargjöld 3.687 milljónum króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.201 milljónum króna. Afskriftir samstæðunnar námu samtals 395 milljónum króna en fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 180 milljónum króna, hlutdeild í tapi hlutdeildarfélaga nam 8 milljónum króna og söluhagnaður hlutabréfa nam 245 milljónum króna.

Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 864 milljónum króna. Reiknaðir skattar námu 142 milljónum króna, hlutdeild minnihluta í afkomu nam 6 milljónum króna og er hagnaður tímabilsins eftir reiknaða skatta þannig 728 milljónir króna. Veltufé frá rekstri hjá samstæðunni nam 876 milljónum króna og handbært fé frá rekstri nam 578 milljónum króna.

Í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal er hætt að afskrifa aflaheimildir á línulegan hátt. Eftirleiðis verður stuðst við virðisrýrnunarpróf og þær færðar niður ef þær rýrna í verðmæti. Afskriftir aflaheimilda á síðasta ári námu 121 milljónum króna en samanburðartölur við síðasta ár hafa ekki verið leiðréttar.

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar í júnílok 2005 voru bókfærðar á 16.270 milljónir króna. Skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 10.341 milljónum króna, hlutdeild minnihluta í eigin fé nam 336 milljónum króna og var bókfært eigið fé samstæðunnar í júnílok 5.593 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 34% í lok tímabilsins og veltufjárhlutfallið 1,48.