Síldarvinnslan hf. var rekin með 932 milljóna króna hagnaði á árinu 2004. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, er 1.773 milljónir króna eða 22% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri nam 1.302 milljónum króna og handbært fé frá rekstri nam 2.549 milljónum króna.

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu námu 7.978 milljónum króna en rekstrargjöld 6.205 milljónum króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.773 milljónum króna, eða sem svarar til 22% af rekstrartekjum. Afskriftir samstæðunnar námu samtals 1.279 milljónum króna en fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld námu 756 milljónum króna, hlutdeild í tapi hlutdeildarfélaga nam 111 milljónum króna.

Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 1.139 milljónum króna. Reiknaðir skattar námu 219 milljónum króna. Hagnaður eftir skatta nam 920 milljónum króna og hlutdeild minnihluta í tapi dótturfélaga nam 13 milljónum króna. Hagnaður ársins er þannig 932 milljónir króna. Veltufé frá rekstri hjá samstæðunni nam 1.302 milljónum króna og handbært fé frá rekstri nam 2.549 milljónum króna.

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2004 voru bókfærðar á 17.286 milljónir króna. Skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 11.510 milljónum króna, hlutdeild minnihluta í eigin fé nam 393 milljónum króna og var bókfært eigið fé samstæðunnar í árslok 5.383 milljónir króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar ríflega 31%. Veltufjárhlutfallið var 1,38 í árslok.

Dótturfélög Síldarvinnslunnar hf. eru; Garðar Guðmundsson hf., SR-mjöl hf., Seley ehf., Fóðurverksmiðjan Laxá hf., Austlax ehf. og Eignarhaldsfélag Austurlands hf.

Hlutdeildarfélög Síldarvinnslunnar hf. eru, Sæsilfur hf., Huginn ehf., Langanes hf., Runólfur Hallfreðsson ehf., East Greenland Codfish A.A, SR-vélaverkstæði hf., G.Skúlason hf., Úthafssjávarfang ehf. og Þingey ehf.