Gengishagnaður Símans og Exista af hlutabréfaeign sinni í Kögun er um 680 milljónir króna en Skoðun, dótturfélag Dagsbrúnar, mun leggja fram yfirtökutilboð innan mánaðar. Síminn og Exista hafa átt bréfin í um tvo mánuði, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Kaupverð Símans og Exista á hlut sínum í Kögun hefur ekki verið gefið upp en hæsta verð Kögunar í Kauphöllinni dagana sem félögin fjárfestu í félaginu var 65,5 krónur á hlut og væntanlegt yfirtökutilboð Skoðunar sem hljóðar upp á 75 krónur á hlut, því um 14,5% yfir því gengi.

Gengishagnaður hagnaður Símans af eign sinni í Kögun er áætlaður tæpar 500 milljónir króna og innleystur gengishagnaður Exista rúmlegar 180 milljónir, taki þeir yfirtökutilboðinu, segir greiningardeildin.

Síminn keypti 26,94% hlut í Kögun þann 9. febrúar og 21. febrúar jók Exista hlut sinn í félaginu í 11,04%. Exista á 43,6% hlut í Símanum og eiga Síminn og Exista því samtals um 38% hlutafjár í Kögun.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.