Hagnaður samstæðu Landssíma Íslands hf. fyrstu sex mánuði ársins 2005 var 2.152 m.kr. Hagnaður samstæðunnar fyrir sama tíma í fyrra var 1.233 m.kr. Rekstrartekjur aukast um 351 m.kr. miðað við sama tímabil árið 2004 og eru 10.285 m.kr. Arðsemi eigin fjár hækkar á milli ára úr 16,2% í 30,6%. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 1.635 m.kr. samanborið við 1.688 m.kr. fyrir árið áður.

Sala á tímabilinu var 10.064 m.kr. samanborið við 9.566 m.kr. árið áður sem er rúmlega 5% aukning. Framlegð hækkar úr 4.394 m.kr. í 4.800 m.kr. eða um 9,2%.

Rekstrargjöld samstæðunnar voru 8.650 m.kr. samanborið við 8.246 m.kr. á sama tímabili í fyrra sem er tæplega 5% aukning. Greiddur var kaupauki til starfsmanna Símans að fjárhæð 180 m.kr.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 3.540 m.kr. á tímabilinu. Afskriftir félagsins fyrstu sex mánuði ársins voru 1.904 m.kr. en námu 1.868 m.kr. á sama tíma í fyrra og hafa hækkað um tæplega 2%. Síminn seldi öll bréf sín í Straumi fjárfestingabanka hf. og nam söluhagnaðurinn 702 m.kr. Einnig seldi félagið hlut sinn í gervihnattafélaginu Eutelsat og nam söluhagnaðurinn 106 m.kr.

Rekstrarhagnaður fyrir skatta hækkar um 58% og nam 2.482 m.kr. samanborið við 1.569 m.kr. fyrir sama tímabil árið áður.

Handbært fé frá rekstri var 4.366 m.kr. samanborið við 3.492 m.kr. árið áður.