Hagnaður varð af rekstri samstæðu Landssíma Íslands hf. (hér eftir nefndur Síminn) á árinu 2004 að fjárhæð 3.070 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi félagsins. Til samanburðar var hagnaður fyrir árið 2003 2.145 m.kr. Rekstrartekjur á árinu voru 19.806 m.kr. samanborið við 18.762 m.kr. á árinu áður. Rekstrargjöld voru 12.261 m.kr. árið 2004 en voru 11.381 m.kr. árið 2003.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 7.545 m.kr. eða 38,1% samanborið við 7.381 m.kr. árið áður eða 39,3%. Helstu skýringar á lækkuðu EBITDA hlutfalli eru leigugreiðslur vegna Farice sæstrengsins, aukin uppgjörsgjöld til annarra fjarskiptafyrirtækja og að rekstur Íslensks sjónvarps ehf. og þar með talið Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. er tekinn inn í samstæðureikning frá 1. október þegar kaup fóru fram. Veltufé frá rekstri var 6.927 m.kr., eða um 35% af rekstrartekjum. Arðsemi eigin fjár var 21,1% fyrir árið 2004 en var 14,8% árið 2003.

Rekstrartekjur Símans hækkuðu um 1.045 m.kr. á milli ára. Rekstrartekjur af umferð hækkuðu lítillega en tekjur af stofn- og afnotagjöldum hækkuðu um tæp 11% á árinu. Aðrar rekstrartekjur lækka aðeins milli ára. Tekjur af talsímaþjónustu héldu áfram að dragast saman en tekjur af farsíma- og gangaflutningsþjónustu hækkuðu á milli ára. Rekstrargjöld samstæðunnar hækkuðu um 880 m.kr., eða úr 11.381 m.kr. í 12.261 m.kr. Laun og annar starfsmannatengdur kostnaður hækkaði um 290 m.kr., fjarskiptakostnaður og þjónusta hækkaði um rúmar 626 m.kr. og annar rekstrarkostnaður lækkaði um rúmar 36 m.kr. Hækkun á fjarskiptaþjónustu skýrist aðallega af leigugreiðslum vegna Farice sæstrengsins og auknum uppgjörsgjöldum til annarra fjarskiptafyrirtækja meðal annars vegna aukinnar notkunar erlendis.

Afskriftir á árinu 2004 voru 4.094 m.kr. en voru 4.464 m.kr. árið 2003. Afskriftir lækka á milli ára og munar þar mest um afskriftir af útlanda- og stofnlínukerfum.

Síminn keypti öll hlutabréf í Íslensku sjónvarpi ehf. fyrir 94 m.kr. Íslenskt sjónvarp ehf. á hlutdeild í Íslenska sjónvarpsfélaginu hf. og koma áhrif þess inn í samstæðureikninginn. Fjögur dótturfélög eru innan samstæðureiknings Símans, Anza hf., Tæknivörur ehf., Skíma ehf. og Íslenskt sjónvarp ehf.
Bókfærð hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga á árinu er neikvæð um 90 m.kr. Hlutdeild félagsins í eigin fé hlutdeildarfélaganna nam 370 m.kr. í árslok. Gengið var frá sölu á hlut félagsins í þremur gervihnattafélögum á árinu. Söluhagnaður af þeirri sölu var um 135 m.kr. Seldur var rekstur flug- og skipaþjónustu sem félagið hefur veitt til Alþjóða flugmálaþjónustunnar og Siglingastofnunar Íslands, söluhagnaður var um 150 m.kr. Gengið var frá kaupum á 10,6% hlut í Carrera Global Investment Ltd. að verðmæti 3,8 milljónir evra.

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 3.081 m.kr. á árinu. Megin hluti fjárfestinganna var í almenna fjarskiptanetinu en þær námu 2.053 m.kr. samanborið við 1.568 m.kr. frá fyrra ári. Fjárfestingar hafa ávallt verið miklar hjá félaginu enda krefst rekstur fjarskiptaþjónustu mikilla fjárfestinga jafnframt því sem tækniframfarir eru örar.

Í tengslum við kaup Símans á Íslensku sjónvarpi var lögð aukin áhersla á uppbyggingu ADSL kerfisins á landsbyggðinni. Þau tímamót urðu að Síminn hóf stafrænar sjónvarpsútsendingar um ADSL kerfi sitt, þar sem SkjáEinum, RUV og SkjáSport, ásamt 7 erlendum stöðvum er dreift. Þjónustan var kynnt í 10 bæjarfélögum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu og fór árangurinn fram úr björtustu vonum.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar 28.588 m.kr. og eigið fé félagsins 16.992 m.kr. þann 31. desember 2004. Eiginfjárhlutfall félagsins var 59% í árslok. Handbært fé í árslok hækkaði frá því árinu áður úr 2.283 m.kr. í 2.826 m.kr. Síminn greiddi 2.111 m.kr. í arð á árinu 2004 eða 30% af nafnvirði hlutafjár. Hlutafé félagsins í árslok 2004 nam 7.036 m.kr. og samkvæmt hluthafaskrá eru skráðir hluthafar 1.255. Tæp 99% hlutafjár er í eigu ríkissjóðs.

Ársreikningurinn er í öllum meginatriðum gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og ársreikningurinn árið á undan að öðru leyti en því að beitt er virðisrýrnunarprófi á viðskiptavild fjárfestinga í tengdum félögum. Áhrif þessarar breytingar á rekstur félagsins á árinu eru óveruleg.
Horfurnar í rekstri Símans fyrir árið 2005 eru góðar. Fyrirtækið hefur sterka fjárhagsstöðu og góða markaðshlutdeild. Í ört harðandi samkeppni á fjarskiptamarkaði er þó gert ráð fyrir miklum fjárfestingum hjá Símanum.
Stjórn félagsins samþykkti reikninginn á stjórnarfundi síðdegis í dag. Stjórnin leggur til við aðalfund að greiddur verði 90% arður á árinu 2005 eða 6.333 m.kr.