Hagnaður Sjóvá samstæðunnar nam 11,9 milljörðum króna á árinu 2006 í samanburði við 3,76 milljarða árið á undan. Eigið fé nam rúmum 9,3 milljörðum í árslok 2006. Eigin iðgjöld félagsins jukust um 10% á árinu.

Í frétt félagsins kemur fram að fjárfestingarstarfsemi félagsins gekk vel á árinu. Félagið hóf umtalsverða útrás með kaupum á fasteignum erlendis undir forystu móðurfélagsins Milestone sem tókst vel. Þungamiðja fjárfestinga
Sjóvá er þó fyrst og fremst þátttaka félagsins í öflugum íslenskum alþjóðafyrirtækjum.

Í fréttinni kemur fram að viðsnúningur í tryggingastarfsemi félagsins heldur áfram. Þar munar mestu umtalsverð lækkun rekstrarkostnaðar félagsins en rekstrarkostnaður nam 2,53 milljörðum árið 2006 samanborið við 3,22
milljarða árið á undan. Samsett hlutfall félagsins, sem er rekstrarkostnaður og tjón í hlutfalli við iðgjöld,
nam 114,8% en var 121,5% árið áður. Áætlanir fyrir árið 2006 um lækkun rekstrarkostnaðar náðust
og er kostnaðarhlutfall félagsins að nálgast erlenda samkeppnisaðila eða um 20%. Tjón urðu hins
vegar meiri en ráð var fyrir gert, ekki síst á seinni hluta ársins.

Á árinu hafði Sjóvá forystu um ýmsar nýjungar sem eru hluti af breyttum áherslum og stefnu félagsins.
Á árinu 2006 hóf Sjóvá að bjóða tryggingaþjónustu utan Íslands og hafa mörg stærstu útrásarfyrirtæki
landsins nýtt sér hana. Þá setti félagið á laggirnar sjálfstætt dótturfélag, Sjóvá Forvarnahúsið, sem
hefur vaxið umtalsvert og mun m.a. sinna slysavörnum og margvíslegu forvarnastarfi. Þá er Sjóvá
kjölfestuhluthafi í Suðurlandsvegi ehf. sem hefur að markmiði að koma af meiri þunga að uppbyggingu
samgöngumannvirkja.

"Sjóvá hefur lagt á það áherslu að bæta afkomu í tryggingastarfsemi á sama tíma og félagið fetar inn á
nýjar brautir sem m.a. snúa að uppbyggingu innviða, útrás og forvarnastarfsemi,? segir Þór Sigfússon
forstjóri Sjóvá í tilkynningunni.

"Umbreytingarnar hjá Sjóvá eru að skila árangri. Starfsfólki Sjóvá hefur tekist að draga úr kostnaði á
sama tíma og ánægja með þjónustu félagsins vex. Bættur rekstur tryggingastarfseminnar leggur
grunn að traustri framtíð félagsins,? segir Karl Wernersson stjórnarformaður Sjóvá.