Hagnaður Smáragarðs hf. nam alls 176,5 milljónum króna. Félagið er hluti af samstæðu Norvikur hf og er megintilgangur þess rekstur og eignarhald fasteigna og annarra fastafjármuna, móðurfélags BYKO.

Heildartekjur félagsins voru 505,9 m.kr. og hagnaður eftir skatta 176,5 m.kr. Félagið keypti ýmsar eignir á s.l. ári sem komust ekki í virkan rekstur fyrr en undir áramót og skiluðu því ekki tekjum fyrr en langt var liðið á rekstrarárið. Tekjustreymi félagsins byggir á leigusamningum að stærstum hluta og hefur félagið gert langtímaleigusamninga um flestar fasteignir í eigu þess.

Heildareignir félagsins voru 4.854,4 m.kr. í árslok 2004 og er heildaraukning eigna um 17%. Eigið fé jókst á sama tíma um 34% og nam í árslok um 692 m.kr. Veltufé frá rekstri nam 166 m.kr.

Liðið ár er fyrsta heila starfsár félagsins eftir samruna þess við fasteignafélagið Bíldshöfða ehf. Á liðnu ári hóf félagið mikla uppbyggingu á Austurlandi nánar tiltekið Reyðarfirði. Þá hélt áfram uppbygging glæsilegrar verslunar á Selfossi sem félagið afhenti leigutaka um mitt liðið ár. Þá hóf félagið miklar endurbætur að Bíldshöfða 20 og er áformað að afhenda leigutaka endurbætt húsnæði um mitt ár 2005. Félagið vinnur nú að mörgum áhugaverðum verkefnum m.a í samvinnu við stærsta leigutaka félagsins og má ætla að mikil gróska einkenni komandi rekstrarár gangi áætlanir félagsins eftir.

Jón Helgi Guðmundsson er formaður stjórnar Smáragarðs.